138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

jarðgöng á Íslandi sem uppfylla Evrópustaðla.

154. mál
[15:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan þegar ég taldi hér upp Hvalfjarðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng. Í svari mínu kom fram að Vegagerðin hefði látið skoða Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng og Spölur látið skoða sín göng. Þar er nokkrum atriðum ábótavant og álitamál um önnur og eftir því er unnið. Það er því búið að greina hvað er að á hverjum stað og hvað þarf að lagfæra eins og hér kemur fram:

„Samkvæmt tilskipun er gefinn frestur til 2014 til að lagfæra eldri göng til samræmis við kröfur tilskipunar. Einnig eru undanþágur í tilskipuninni sem geta gilt um umferðarlítil göng ef unnt er að sýna fram á með áhættumatsgreiningu að öryggi sé tryggt.“

Eins og hv. þingmaður segir er þetta leiðarvísir hér. Ég get auk þess bætt því að mér er kunnugt um það að á vegum Vegagerðarinnar og slökkviliðsstjórans í Fjallabyggð, þ.e. sameinuðum Siglufirði og Ólafsfirði, er verið að vinna að áætlunum sem varða Strákagöng og Ólafsfjarðargöng þó að þau séu ekki hér inni. Nú veit ég ekki hvort það er vegna þess hve þau eru gömul eða umferð um þau lítil, en þar er verið að vinna að þessu og fara í gegnum þetta og þar hafa verið haldnir fundir. Ég er þess fullviss að bæði á vegum Vegagerðarinnar og annarra, og þá koma auðvitað slökkviliðin inn og fleiri aðilar á viðkomandi svæðum, er unnið að þessu. Við skulum vona að okkur takist að fara í það að uppfylla þessar tilskipanir sem koma frá Evrópusambandinu, þær eru margar góðar, mjög góðar, eins og margt sem kemur frá Evrópusambandinu sem við verðum að taka upp og haga okkur eftir, vegna þess að þær munu auka umferðaröryggi og við erum alltaf á verðinum hvað það varðar.