138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Evrópustaðlar um malbik.

155. mál
[15:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr í fyrri spurningunni: „Hefur ráðherra kannað hvort hér á landi séu uppfylltir Evrópustaðlar um malbik?“

Evrópustaðlar um malbik tóku gildi 1. mars 2008 og hafa fulltrúar Vegagerðarinnar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands fylgst með og tekið þátt í staðalvinnunni undanfarin ár, bæði hvað varðar prófunar- og framleiðslustaðla fyrir malbik. Vegagerðin hefur gefið út leiðbeiningar um efnisgæði og efnisrannsóknir í vegagerð sem taka mið af og uppfylla að mestu Evrópustaðlana, m.a. um framleiðslu malbiks. Um þessar mundir er unnið að því að leiðbeiningarit ásamt almennum verklýsingum Vegagerðarinnar uppfylli ákvæði staðlanna að fullu og mun Vegagerðin sem kaupandi malbiks skilgreina kröfur sínar í samræmi við Evrópustaðla. Á þessu ári sköpuðust nýjar forsendur til að ná því takmarki þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samráði við Vegagerðina, Reykjavíkurborg, malbikunarstöðvar og fleiri aðila, festi kaup á nýjum tækjabúnaði sem uppfyllir kröfur Evrópustaðla um prófanir á malbiki. Nú er að störfum óformlegur samráðshópur, sem í sitja fulltrúar Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og malbikunarstöðva, sem hefur það að markmiði að gera tillögu að þjóðarleiðbeiningum fyrir framleitt malbik í samræmi við Evrópustaðla og um það hvernig staðið verði að upphafsrannsóknum á malbiksgerðum. Tvær stærstu malbikunarstöðvar landsins, þ.e. Höfði og Hlaðbær-Colas, hafa verið með í ráðum og stefna að því jafnhliða áðurnefndri vinnu, að þeirra framleiðsla verði að fullu í samræmi við Evrópustaðla. Allar malbikunarstöðvar sem selja malbik á markaði eiga að uppfylla ákvæði Evrópustaðla.

Eins og fram kemur að ofan er þeirri vinnu ekki að fullu lokið, en slík staða er einnig uppi í nokkrum öðrum Evrópulöndum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er tilnefndur aðili fyrir malbiksframleiðslu og getur þar með vottað að framleiðsla fari fram í samræmi við viðkomandi Evrópustaðla þegar samráðshópurinn um þjóðarleiðbeiningar hefur lokið störfum. Stefnt er að því að þessari vinnu ljúki sem fyrst.

Önnur spurningin þarfnast ekki svars miðað við það sem ég hef hér sagt.

Virðulegi forseti. Ég vildi segja bara rétt í lokin að miðað við það svar sem ég hef hér gefið, þá kemur mjög margt gott frá Evrópusambandinu. Við erum að innleiða staðla um malbik og veit ég að það gleður hv. þingmann mjög að Evrópusambands- og Evrópustaðlar hafa verið teknir hér upp og þetta jákvæða svar við fyrirspurn hans, um leið og ég þakka honum fyrir að bera þessa fyrirspurn fram og gefa mér kost á því að svara hvernig Evrópustaðlar um malbik verða innleiddir á Íslandi.