138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Evrópustaðlar um malbik.

155. mál
[15:21]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna og fyrirspyrjanda fyrir að bera þessa fyrirspurn fram eins og ég sagði áðan, vegna þess að það er mikilvægt að þetta komi fram.

Nokkur atriði hafa komið fram í þessari umræðu eins og það að hv. þm. Ólöf Nordal spyr um þann ljóta sið Vegagerðarinnar að láta vegfarendur þjappa. Vegfarendur þjappa nú ekki malbik eins og við höfum verið að ræða hér og það er mikill munur á malbiki, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, og svo hvort sem við viljum kalla það ottadekk eða klæðningu, þ.e. þegar laus möl er sett ofan í olíu sem búið er að sprauta yfir veginn áður. Það er mikill munur á því. Þá er það sem umferðin, en auðvitað er það mikið þjappað af verktökum, pressar eitthvað af því. Það á sér ekki stað í malbikinu eins og hv. þm. Ólöf Nordal talaði um áðan.

Evrópusambandið hefur líka borist inn í þessa umræðu og hv. þm. Eygló Harðardóttir talar um að Evrópusambandið sé ekki alslæmt. Þetta er alveg rétt. Ég veit það og hv. þingmaður veit það líka vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur ályktað um það að við Íslendingar eigum að fara í Evrópusambandið og þá deilum við þessum atriðum. Ég minnist tímamótasamþykktar flokksfélaga hv. þingmanns í Norðausturkjördæmi þegar þeir voru á kjördæmaþingi og samþykktu á Egilsstöðum að Framsóknarflokkurinn ætti að styðja það að ganga í Evrópusambandið (Gripið fram í.) til þess að verða framúrskarandi þjóð eins og hv. þingmaður talaði um, sem við ætlum okkur að verða.

Svona rétt í lokin, af því við erum að ræða hér um nokkrar aðferðir við að setja bundið slitlag á vegi. Hv. þingmaður spyr um steypuna, af hverju ekki hafi verið gert meira af því að steypa. Það var auðvitað steypt töluvert mikið hér áður, ætli það sé ekki aðallega vegna þess að það er töluvert dýrara í byrjun. Viðhald getur líka verið erfiðara á því og það er sennilega þess vegna sem þetta er mest gert svona.

En aðeins varðandi tilskipunina og tilskipanir Evrópusambandsins. Þó að ég hafi ekki tíma til að fara yfir tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar, má ég til með að minnast á það, virðulegi forseti, að sú innleiðing var (Forseti hringir.) leidd í íslensk lög í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og hún hlýtur að hafa verið gallalaus fyrst það var gert af þeim.