138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

EuroRap-verkefnið.

156. mál
[15:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er nú kominn til að ræða umferðaröryggismál en Samfylkingin er tekin við af flokki sem var hér, Frjálslynda flokknum, það var alveg sama hvað maður ræddi við Frjálslynda flokkinn, þeir sneru því alltaf yfir í kvóta. Hér er þessi merki málaflokkur sem eru umferðaröryggismálin, sem ég held að ætti skilið að fá athygli, og það er farið að ræða um Evrópusambandið. Það er bara þannig að Samfylkingin getur ekki rætt neitt nema að minnast á það. (Samgrh.: Þú byrjaðir.) Virðulegi forseti. Ég heyri að núna er eitthvað að fara um hæstv. ráðherra og hann kallar mikið fram í að ég hafi byrjað. Jú, rétt, ég byrjaði að spyrja spurninganna, hvað annað átti ég að gera? Ef það er upphafið að því að Samfylkingin þurfi enn og aftur að ræða Evrópusambandið, er það bara þannig. Þetta er nákvæmlega sama og ég lenti í með Frjálslynda flokkinn líka, það var sama hvað ég ræddi við þá ágætu hv. þingmenn, það endaði alltaf í kvótamálum. Ég ætla nú ekkert að fara að stríða hæstv. ráðherra á því að þegar Evróputilskipunin um innstæðutryggingarsjóðinn var innleidd, kom Samfylkingin með breytingartillögu, sem var sem betur fer felld, sem hefði þýtt að við hefðum þurft að borga 700 milljörðum meira miðað við þá samninga sem eru í gangi núna. En látum það liggja milli hluta.

Hér er stórmál á ferðinni sem er EuroRap og ég minntist á í fyrstu fyrirspurn minni. Þetta er einfaldlega gæðaúttekt á öryggi vegakerfa í dreifbýli. Eins og ég sagði er ástæðan fyrir því að farið var út í þetta á þessum tíma að ég spurði þáverandi hæstv. samgönguráðherra, Sturlu Böðvarsson, út í þetta árið 2006 og hann tók þetta af miklum krafti. Ég vildi spyrja, virðulegi forseti:

1. Hver er staðan á EuroRap-verkefninu á Íslandi?

2. Hefur verkefnið leitt til endurbóta og aðgerða til að auka umferðaröryggi?

3. Hvert verður framhaldið á verkefninu?

Ég skal alveg viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég hef fylgst með þessu verkefni. Þetta er stórmál. Það er algjört stórmál þegar keyrt er um vegi landsins, það er sama hvort það eru Íslendingar og ég tala nú ekki um útlendinga sem eru óvanir, að við hönnum umferðarmannvirki, vegi og brýr og annað, með þeim hætti að það séu allra minnstu líkur á að það verði slys, og verði slys séu allra minnstu líkur á að þau verði alvarleg. Út á það gengur þetta verkefni. Verkefnið lætur ekki mikið yfir sér, það er ekki mikið í fjölmiðlum. En verkefni eins og þetta bjargar mannslífum og það kemur sömuleiðis í veg fyrir það, ef menn fylgja því eftir alla leið og þeirri hugmyndafræði sem þar er, að fólk slasist alvarlega. Og því spyr ég hæstv. ráðherra þessara þriggja spurninga.