138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

EuroRap-verkefnið.

156. mál
[15:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör. Hann vísaði í það hér að það hefðu bæði góðar og frábærar hugmyndir komið frá þessu og þetta hafi orðið til þess að auka umferðaröryggi í landinu og fór nákvæmlega yfir slysahættur. Ég veit að hann þekkir það vel, ætli hann sé ekki alinn upp við slysahættur? Ég er ekki viss um að vegurinn við Strákagöng — sem ég hef keyrt nokkrum sinnum og man hvernig mér leið, sérstaklega sem barni þegar maður fór þá leið, maður var ekki vanur slíku þegar keyrt var um Borgarfjörðinn á milli Borgarness og Reykjavíkur, en þetta snýr ekki að því hvernig ungum börnum líður þegar keyrt er, þetta eru gríðarlegar slysahættur.

Ástæðan fyrir því að ég tel að við eigum að hafa þetta í forgangi alltaf, ekki síst þegar við horfum í hverja krónu, er sú að ef við gerum mistök á þessu sviði eru mistökin svo dýr. Þau koma niður á heilbrigðiskerfinu, þau koma náttúrlega niður þar sem við þekkjum en kemur ekki fram í neinu bókhaldi, sem er tilfinningalegt tjón fólks. Síðan er svo dýrt að gera við. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að mistök hafi verið gerð og breyta þurfi vegi eða umferðarmannvirkjum er það svo dýrt. Ég veit, virðulegi forseti, að núna eru allir ljósastaurar sem settir eru niður árekstravænir eins og sagt er. Ég veit að öll brúarhandrið eru núna samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Verið er að taka grjót úr köntum og eftir því sem ég best veit eru allar nýframkvæmdir samkvæmt stöðlum. Þetta gerist ekki af sjálfu sér, t.d. með ljósastaurana, það skiptir gríðarlega miklu máli að þeir séu árekstravænir, ef þannig má að orði komast, það er ekkert annað orð yfir það, en þeir voru þannig að þeir voru gríðarlega hættulegir og sköpuðu óþarfa hættu, það er nógu slæmt að keyra á þessa staura. Ekkert af þessu gerist af sjálfu sér og við megum ekki slaka á hvað þetta varðar.

Ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir góð svör og áhuga hans á málinu og hvet hann til dáða hvað þetta varðar.