138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

vegir sem uppfylla staðla Evrópusambandsins.

157. mál
[15:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hlý orð í minn garð. Eins og ég nefndi áðan erum við samherjar í því að reyna að efla umferðaröryggi í landinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum þetta mikilvæga mál til umræðu reglulega á þinginu og förum yfir stöðu mála, hvernig hefur gengið hjá okkur og eftir hvaða leiðum við vinnum.

Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir staðla eða viðmiðunarreglur TERN en maður hefði kannski mátt segja sér það að þetta er þannig mál að betra er að skoða það yfir korti en fara yfir það úr ræðupúlti. En ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég held að það væri mjög æskilegt ef samgöngunefnd færi yfir þessi mál og þá öll málin sem ég spurði hér um, og þetta væri eitt af þeim leiðarljósum sem við hefðum til grundvallar þegar við tökum ákvarðanir í samgöngumálum. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur og við eigum óhikað að taka upp hluti, sama hvaðan þeir koma, að því gefnu að þeir séu góðir. Eftir því sem ég best veit eru í Evrópu, ég þekki ekki Vesturálfu en það eru a.m.k. lönd innan Evrópusambandsins sem hafa náð lengst í heimi hvað varðar umferðaröryggismál. Þá er bara eitt fyrir okkur að gera að í staðinn fyrir að finna upp hjólið eigum við bara að læra af þeim og ég lít svo á að við séum að gera það. Ég þakka svo hæstv. ráðherra fyrir öll þau svör sem hér hafa komið fram.