138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka.

213. mál
[15:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um sameiningu eða hugsanlega sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands.

Nú hefur það nokkuð verið í umræðunni frá því síðasta haust þegar bankarnir hrundu, hvort ástæða væri til að gera breytingar á eftirliti með bankakerfinu og þá sérstaklega hvort ástæða væri til að meira samband og samstarf væri á milli Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Í gildi hafa verið samningar milli þessara aðila um þetta en einhvern veginn finnst manni að þessir atburðir hljóti að leiða hugann að því hvort ekki þurfi að gera betur í þessu. Við höfum verið með sjálfstætt starfandi fjármálaeftirlit undanfarin 10 ár, ég hygg að hafi verið í upphafi árs 1999 sem Fjármálaeftirlitið tók til starfa. Áður hafði bankaeftirlitið verið í Seðlabanka Íslands innan vébanda bankans. Uppi eru sjónarmið um að það fyrirkomulag hafi að mörgu leyti gefist ágætlega vegna þess að með því að hafa bankaeftirlitið innan bankans, hafði bankastjórn Seðlabankans jafnvel meiri tök á því að fylgjast með bönkunum gegnum bankaeftirlitið, auk þeirra úrræða sem bankinn sjálfur hafði.

Mig langar til að forvitnast um þetta hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, hver skoðun hans á þessu máli er, hvernig hann telji að best sé til lengri tíma að haga skipulagi á þessum málaflokki og þá sérstaklega hvort einhver athugun sé í gangi í ráðuneytinu um það hvernig best skuli haga þessu eftirliti.

Ég geri mér grein fyrir að það er margt á könnu Fjármálaeftirlitsins nú um stundir. Ég er fyrst og fremst að spyrja að þessu til lengri tíma litið, hvort þetta sé eitthvað sem væri æskilegt að gera, eða hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra telji að hægt sé að styrkja það eða ganga betur um hnútana hjá Fjármálaeftirlitinu svoleiðis að eftirlitið sé með betri hætti en verið hefur.

Nokkuð var um þetta rætt eins og ég segi í kjölfar hrunsins, minna hefur farið fyrir þessari umræðu akkúrat núna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda þessari umræðu dálítið vakandi og menn velti fyrir sér hvernig best sé að haga þessu. Ég vil þess vegna forvitnast um þetta sérstaklega hjá hæstv. ráðherra.

Mig langar jafnframt að spyrja hann að því hvernig þróunin eða umræðan er í nágrannalöndunum núna, þar sem menn eru einnig að ganga í gegnum erfiðleika vegna fjármálakreppunnar og hvort Evrópureglur séu að breytast eitthvað hvað þetta varðar, og hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi þá upplýsingar um hvernig sú þróun gæti orðið og hvaða áhrif það mundi hafa á þá umræðu sem er á Íslandi.