138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka.

213. mál
[15:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Þetta hefur aðeins verið rætt innan viðskiptanefndar þar sem ég á sæti og það hafði einmitt komið fram áður í orðum hæstv. ráðherra að þetta væri ekki eitthvað sem væri á áætlun eða unnið væri að vinna núna, þ.e. sameining Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands.

Hins vegar má benda á að þetta var ein af tillögunum sem komu fram í Kaarlo Jännäri-skýrslunni, að skoða það að fara í sameiningu á þessum tveimur stofnunum, og segja má að tekið hafi verið ákveðið skref í þá átt með því að færa Seðlabanka Íslands undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið.

Annað sem ég saknaði kannski í annars ágætu svari hjá ráðherranum var að benda á að eitt af því sem virðist hafa komið upp á í hruninu var þessi skipting á því að Fjármálaeftirlitið hafði eftirlit með bankastofnunum en Seðlabankinn var sá sem fylgdist með lausafé bankanna. Það reyndist vera stóri áhættuþátturinn í rekstri bankanna að þeir áttu í miklum erfiðleikum með að fjármagna sig frá (Forseti hringir.) degi til dags og var raunar það sem gerðist síðan á endanum að Seðlabanki Íslands fór á hausinn ásamt bönkunum.