138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka.

213. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir svörin. Ég hygg að það sé mikilvægt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að auðvitað voru mjög samverkandi þættir sem ollu því að þetta hrun varð hér. Við vitum auðvitað að vandinn er alþjóðlegur en það er engu að síður ástæða til þess fyrir okkur að rýna mjög vel í þau kerfi sem við höfum á Íslandi og líka þá umræðu sem hafði raunar verið í gangi í nokkurn tíma í sjálfu sér, hvort eftirlitinu væri betur komið með öðrum hætti, hvernig sem menn síðan leysa úr því þegar þar að kemur. Við þurfum bæði að fylgjast með því hvernig þróunin er í nágrannalöndunum og enn fremur að skapa hér kerfi sem hentar okkar íslensku aðstæðum. Þessi skýrsla de la Rosiere er auðvitað mjög mikilvægt innlegg í þá umræðu sem við þurfum að fara í á Íslandi.

Mér finnst mikilvægt á vettvangi þingsins núna þegar við erum að reyna að reisa efnahaginn við að við hugum jafnframt að því hvernig hlutunum sé betur komið fyrir til framtíðar. Ég tek undir það hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að auðvitað er ekki hægt að gera alla hluti í einu og það getur verið varhugavert að fara að kollvarpa hlutunum í því róti sem nú er. En umræðan er mjög þörf og ég þakka fyrir þetta svar hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Ég hef auðvitað ekki forsendur til að meta það eða þekkingu hvernig þessu er best fyrir komið en mér finnst samt mjög athyglisverð þau sjónarmið sem hafa komið fram um samspil Fjármálaeftirlits og Seðlabanka að sambandið sé a.m.k. svo náið að það fljóti betur á milli þannig að menn fylgist betur með því sem fram fer, þótt aldrei sé hægt að kenna neinu einu um þá atburði sem urðu hér, enda eru þeir eins og við vitum alþjóðlegir atburðir.