138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

samkeppni á fyrirtækjamarkaði.

214. mál
[18:03]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu fyrirspurn. Það er kannski fyrst rétt að vekja athygli á því sem ég held að ég og hv. þingmaður séum örugglega sammála um að er þó jákvætt í þessu öllu saman. Í ljósi þess að nú stefnir í að eignaraðild ríkisins að bankakerfinu verði ekki jafnmikil og menn héldu fyrir rúmu ári eru þau fyrirtæki umtalsvert færri sem hægt er að halda fram að séu á forræði ríkisins í þeim skilningi að þau séu í einhvers konar meðferð á vegum ríkisbanka. Út af fyrir sig er jákvætt að fjöldinn skuli þó vera minni í ljósi þess að hlutdeild ríkisins í bankakerfinu er minni heldur en menn töldu að ástandið yrði þegar lagt var af stað með endurreisn bankakerfisins í október á síðasta ári.

Síðan er líka rétt að vekja athygli á því að þótt ríkið eigi fyrirsjáanlega talsverðan hlut í Landsbankanum og jafnframt einhvern hlut í öðrum fjármálafyrirtækjum, þar á meðal sparisjóðum, þá hefur verið sett upp ákveðið kerfi með Bankasýslu ríkisins sem skermar, ef við getum orðað það þannig, þessi fjármálafyrirtæki fyrir beinum afskiptum, t.d. ráðuneyta. Ég tel að það sé af hinu góða að vera með þessa faglegu stofnun, Bankasýsluna, sem fer með eignarhlut ríkisins í þeim fjármálafyrirtækjum sem ríkið eignast hlut í, frekar en að það sé beint undir t.d. fjármálaráðuneytinu.

Það breytir því hins vegar ekki að það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að fjölmörg fyrirtæki eru nú í einhvers konar gjörgæslu eða meðferð hjá fjármálastofnunum, sumum í eigu ríkisins. Þetta veldur vitaskuld ekki bara vandræðum fyrir þessi fyrirtæki heldur einnig keppinauta þeirra og aðra sem starfa á fyrirtækjamarkaði, birgja og aðra. Mjög brýnt er að úr þessum málum verði spilað þannig að lausn á vanda eins verði ekki vandi annars með því að sumum fyrirtækjum sé gert mögulegt að hrista af sér alla samkeppni í ljósi sterks fjárhagslegs bakhjarls.

Almennt má segja um þetta hugtak, samkeppni á fyrirtækjamarkaði, að á fyrirtækjamarkaði sem og öðrum mörkuðum gilda ákvæði samkeppnislaga. Markmið samkeppnislaganna kemur fram í 1. gr., þar sem segir að lögin hafi það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og vinna þar með að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins.

Samkeppnislögin gilda auðvitað um hvers konar atvinnustarfsemi án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Þau gilda því jafnt um fyrirtæki, hvort sem þau eru í eigu einkaaðila eða banka og hvort sem bankarnir eru í eigu ríkisins eða einkaaðila.

Hins vegar er ljóst að mörg íslensk fyrirtæki glíma nú við mikinn rekstrarvanda og vanda vegna slæms efnahags, þótt reksturinn sé stundum einn og sér í þokkalegu horfi, og því hafa bankarnir þurft að grípa inn í rekstur allnokkurra fyrirtækja. Þessar ákvarðanir bankanna hafa mikla þýðingu fyrir framtíðarsamkeppnisaðstæður og virkni atvinnulífsins. Færa má rök fyrir því að líklega hafi aldrei verið mikilvægara en nú að hafa umgjörð um efnahagslífið sem nýtir kosti samkeppninnar og að endurreisn viðskiptalífsins verði á engan hátt á kostnað samkeppni. Enda væri það mjög skammvinnur sparnaður ef menn fórnuðu samkeppni til þess að halda einhverjum fyrirtækjum á lífi en byggju svo í kjölfarið við mjög óhagkvæma skipan mála og litla samkeppni. Það væri hvorki gott fyrir viðkomandi fyrirtæki né viðskiptavini þeirra.

Í ljósi þessa beindi Samkeppniseftirlitið því til viðskiptabankanna í nóvember á síðasta ári að við töku ákvarðana um framtíð fyrirtækja væri höfð hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum. Eftirlitið taldi upp tíu meginreglur sem það taldi rétt að hafa til hliðsjónar við ákvarðanir bankanna, m.a. að sú ráðstöfun sé almennt valin sem raskar samkeppni sem minnst, að ekki sé stofnað til aukinnar fákeppni eða óæskilegrar stjórnunar og eignatengsla, að hagsmunir tveggja keppinauta séu ekki á hendi sömu aðila, að hlutlægni í ráðstöfun eigna sé tryggð og ýmislegt fleira. Þessar reglur voru birtar opinberlega í fyrra og hart hefur verið lagt að bönkunum að ganga eftir þeim. Ég get svo sem ekki gefið neitt yfirlit um það núna hvort vel hafi tekist til með það, (Forseti hringir.) en ég treysti því að eftir þessu sé farið.