138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

menningarsamningar á landsbyggðinni.

135. mál
[18:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Eitt af þeim verkefnum sem tengjast uppbyggingu bæði menningar og menningarstarfs og ekki síst á landsbyggðinni, tengist menningarsamningum þeim sem ég spyr um hér. Á sínum tíma gerði þáverandi ráðherra Björn Bjarnason menningarsamning við Austurland sem strax gaf bæði að mati ráðuneytisins og ekki síst heimamanna góða raun. Síðan vatt þetta upp á sig og hver menningarsamningurinn á fætur öðrum var gerður og landið var í rauninni klárað.

Í dag væri auðvitað æskilegt að sjá hvaða árangur hefur náðst, hversu mörg verkefni hafa verið framkvæmd á grundvelli samningsins, hvernig samstarfi við sveitarfélögin hefur verið háttað. Rétt er að taka fram að á grundvelli m.a. góðs árangurs fyrstu áranna á Austurlandi fóru önnur sveitarfélög og önnur svæði að sækjast eftir því að gera slíka menningarsamninga og greiða síðan sjálf ákveðna hlutdeild inn í menningarsamningana.

Núna þegar við stöndum frammi fyrir forgangsröðun í ríkisfjármálum og sjáum fram á að þurfa að átta okkur á hvar útgjöldin bera niður, verðum við að átta okkur á bæði verkefnunum sem um ræðir og menn eru að velta fyrir sér og líka hvaða árangri þau skila til lengri tíma. Þess vegna er mikilvægt vita hversu mörg verkefni hafa fallið frá upphafi undir menningarsamningana og hversu mörg störf bein eða óbein hafa skapast einmitt vegna sömu samninga. Á tímum sem þessum er mikilvægt að halda uppi öflugu menningarstarfi en á endanum stöndum við alltaf frammi fyrir því hvar ráðuneytið þarf að forgangsraða og hvar ekki.

Ég hef hins vegar haft mikla ánægju af því að fylgjast með þessum verkefnum, gerði það á sínum tíma, og það hafa náttúrlega ótrúlegustu verkefni sprottið fram. En gott væri að vita töluna frá hæstv. ráðherra.