138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

menningarsamningar á landsbyggðinni.

135. mál
[18:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þessa ágætu fyrirspurn sem snertir á mikilvægu máli. Ég vil byrja á að greina frá því að við leituðum umsagna menningarráðanna við að undirbúa svarið við þessari fyrirspurn. Menningarsamningarnir, sem eru samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis annars vegar og sveitarfélaganna í landinu hins vegar, eru sjö talsins, við Suðurnes, Suðurland, Austurland, Norðurland eystra, Norðurland vestra, Vestfirði og Vesturland og þá er ekki talinn með sérstakur menningarsamningur við Akureyri sem lýtur aðeins öðrum lögmálum og snýst um tiltekin verkefni.

Eins og hv. þingmaður benti á hefur samningurinn við Austurland verið í gildi allt frá árinu 2002, við Vesturland frá 2006 og við aðra landshluta frá árinu 2007. Í fjárlögum þessa árs sem lögð hafa verið fram er lagður til 5% niðurskurður sem er með því minnsta sem gerist í menningarmálum. Við sýnum með því ákveðna forgangsröðun í þágu þessara samninga, enda hefur verið almenn og víðtæk ánægja með þetta fyrirkomulag í samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga.

Alls hafa frá upphafi verið veittir 1942 verkefnastyrkir samtals að upphæð 684,6 millj. kr. Menningarráð Austurlands hefur frá árinu 2002 veitt 184,5 millj. til 567 verkefna og auk þess hafa verið veittar 9,9 millj. til innlendra sem erlendra samstarfsverkefna og þróunarverkefna. Þar má nefna samstarf við Listahátíð í Reykjavík og landsvæðin Donegal á Írlandi, Vesterålen í Noregi og nú Fiskars í Finnlandi, þannig að þetta samstarf teygir sig úr fyrir landsteinana. Þá hefur menningarráð Austurlands veitt 68 millj. til fjögurra menningarmiðstöðva á Austurlandi, bæði í formi verkefna og rekstrarstyrkja.

Menningarráð Norðurlands vestra hefur alls veitt 257 verkefnastyrki, samtals að upphæð 93,7 millj. kr. Frá því að menningarráð Vestfjarða hóf starfsemi 2007 hafa 199 verkefni verið styrkt um samtals 76 millj. Seinni úthlutun á árinu 2009 á eftir að fara fram og þá má reikna með að u.þ.b. 50 verkefni til viðbótar fái styrk. Sú fjárhæð sem þá er til ráðstöfunar er 18,5 millj.

Menningarráð Suðurnesja hefur á undanförnum þremur árum úthlutað styrkjum til 173 verkefna fyrir 63 millj. Á Vesturlandi hefur verið úthlutað styrkjum að upphæð 91,6 millj. til 248 verkefna. Menningarráð Eyþings hefur úthlutað 69,7 millj. til 185 verkefna og menningarráð Suðurlands hefur veitt 263 verkefnastyrki að upphæð 87,6 millj. Meðalstyrkfjárhæð styrkveitinga hjá menningarráðunum er á bilinu 330–380 þús. kr.

Verkefnastyrkirnir hafa verið grundvöllur margra aðila fyrir nýsköpun og þróun í menningu og ferðaþjónustu og þeir eru vel til þess fallnir til að styrkja það starf á landsbyggðinni. Öll verkefnin þurfa að sýna fram á 50% mótframlag og hjá mörgum þeirra er mótframlagið mun hærra. Eingöngu eru veittir verkefnastyrkir en ekki til rekstrar nema hjá Austurlandi eins og fyrr er greint frá.

Verkefni menningarráðanna eru fjölbreytt og hafa dreifst vel á milli byggðarlaga og einstakra greina menningarinnar. Þá hefur þetta samstarf leitt til verulegrar fjölgunar á samstarfsverkefnum sveitarfélaga og annarra aðila. Um helmingi allra umsókna er þó jafnan hafnað þannig að það sýnir auðvitað að ásóknin er líka mikil.

Hvað varðar fjölda starfa, beinna og óbeinna, sem hafa skapast vegna sömu samninga tóku menningarfulltrúarnir þá sameiginlegu ákvörðun til að gæta samræmis í svörum að reikna út hve marga mannmánuði styrkirnir skapa og færa það síðan yfir í ársverk. Leitað var til Hagstofu Íslands um kostnað við einn mannmánuð. Slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir hjá Hagstofunni en þar var reiknaður út meðalmannmánuður í tilefni fyrirspurnarinnar út frá atvinnugreinaflokkum sem við á með launatengdum gjöldum. Niðurstaða þeirrar skoðunar var að hvert ársverk kostaði um 3,6 millj. og þá útleggst mannmánuðurinn á 300 þús. kr. Miðað við þann útreikning hafa skapast 190 ársverk alls frá því að samningarnir tóku gildi en þar sem styrkir menningarráðanna nema aldrei meira en 50% kostnaðar við hvert verkefni sem styrkt er má ætla að helmingi fleiri störf hafi skapast.

Það er erfitt að fullyrða að einn verkefnastyrkur skapi ákveðinn fjölda starfa en það er hins vegar ljóst að þeir veita tímabundin störf. Það er líka erfitt að greina hversu hátt starfshlutfall er á bak við hvern styrk þar sem styrkirnir eru einungis hluti af fjármögnun verkefna. En við þann fjölda sem nú hafa með einhverjum hætti atvinnu af menningarmálum og menningartengdri ferðaþjónustu er því að bæta að menningarráðin, fyrir utan Suðurnes, hafa öll ráðið til sín menningarfulltrúa og þeir hafa skipt sköpum um það hversu vel hefur tekist til að efla þessa atvinnugrein víða um land. Ljóst er að það má reikna með umtalsverðum fjölda starfa og við höfum líka séð að fjölmörg sveitarfélög hafa í auknum mæli ráðið til sín menningarfulltrúa til að vinna að því að efla menningarmál hvert í sínu sveitarfélagi, þannig að það mætti slumpa á að þetta væru u.þ.b. 200 störf í þessu samhengi.