138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

héraðsdómarar og rekstur dómstóla.

185. mál
[18:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fram kom áðan að það ber að fagna auknu fjármagni ef það næst fram til dómstólanna.

Það sem ég var að vitna í varðandi samráð er að ég hef undir höndum upplýsingar um að í bréfi sem dómstólaráð sendi ráðuneytinu er fullyrt um ákveðið samráð sem ekki fæst staðist samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef.

Ég hef líka áhyggjur af þeirri fjarlægð sem virðist vera á milli ráðuneytisins og dómaranna. Það getur verið að það sé nauðsynlegt út af hlutleysi og slíku, en ég hef áhyggjur af því að þetta sé einhvers konar sía sem síar hlutina inn í ráðuneytið og kallast þá væntanlega dómstólaráð.

Varðandi sparnað í rekstri dómstólanna vil ég telja upp örfá dæmi sem má hugsanlega skoða. Það má t.d. fara í það að skoða húsaleigu sem er mjög há á sumum stöðum, t.d. hjá héraðsdómstólnum á Reykjanesi. Það má væntanlega skoða það hvort starfsmenn dómstóla taki á sig einhverja launalækkun í viðbót, flestir eru að gera það og ég veit að þeir hafa svo sem gert það líka. Síðan má spyrja hvort dómstjóri héraðsdóms þurfi að vera dómari, hvort hægt sé að fá ódýrari starfskraft til að gegna því starfi. Má fækka í dómstólaráði? Mér finnst það óheyrilegur kostnaður sem fellur á dómstólaráð samkvæmt þeim gögnum sem ég hef fengið í hendur. Má hugsanlega lækka greiðslur til dómstólaráðs ef ekki er hægt að fækka í því ráði? Eftir því sem ég best veit eru þeir aðilar sem þar sitja á launum hvort sem þeir eru dómarar eða í öðrum störfum. Má lækka ferðakostnað dómstólaráðs, sem mér sýnist að sé allverulegur? Og má þá draga einnig úr hugsanlegum kostnaði vegna sérfróðra meðdómenda?

Ég held að hægt sé að ná töluverðum sparnaði, hæstv. ráðherra, með beinu samráði við þá sem vinna að þessum málum. Það kann að vera að halda þurfi ákveðinni fjarlægð milli framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins en mér sýnist ekki í raun að dómstólaráð geri það.