138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

verkefni héraðsdómstóla.

187. mál
[18:55]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnir. Ég ætla að bregðast við síðustu orðum hv. fyrirspyrjanda strax og ítreka það að í framkomnum tillögum um breytingu á fyrirkomulagi héraðsdómstólanna er ekki gert ráð fyrir niðurlagningu á dómarastöðum.

Ég tel almennt að vinna megi betur að því að færa verkefni frá höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðina. Þannig hafa verkefni verið færð frá dómsmálaráðuneytinu til einstakra sýslumanna víða um land á undanförnum árum með mjög góðum árangri.

Hvað varðar rekstur dómstóla tel ég að framkvæmdarvaldið eigi að hafa þar sem minnst afskipti og endurspeglast það reyndar í gildandi lögum um dómstóla. Kom ég inn á sjónarmið þess efnis í svari við fyrirspurn rétt áðan. Ég leyfi mér þó að skýra frá þeirri skoðun minni að ég tel að það eigi að huga vel að því hvort unnt sé að færa einhverja þætti stoðþjónustu við dómstólana út á landsbyggðina. Í sambandi við frumvarp það sem nú er til meðferðar hjá allsherjarnefnd og varðar breytingu á dómstólalögum, hefur dómstólaráð bent á að með því að breyta héraðsdómstólum úr átta stofnunum í eina, megi vinna bókhald á einum stað, svo og símsvörun, svo dæmi séu nefnd. Hefur dómstólaráð bent á að þessa þætti mætti eftir atvikum flytja út á landsbyggðina ef heppilegt þykir.

Endurritun dómgerða í sakamálum hefur einnig verið nefnd sem verkefni sem vinna má hvar sem er á landinu. Endurritunin fer þannig fram að ritari endurritar framburð ákærða og vitna af hljóðupptökum. Ljóst má vera að slík vinnsla getur farið fram miðlægt hvar sem er, en hún er nú á hendi starfsmanna viðkomandi héraðsdómstóls. Reyndar hefur dómstólaráð lagt til við Hæstarétt að þessu fyrirkomulagi verði breytt og verkefnið falið ríkissaksóknara á sama hátt og er í einkamálum þar sem sá sem stendur að áfrýjun ber ábyrgð á því verki gagnvart Hæstarétti.

Hvort sem endurritunin, að hluta eða heild, fer fram á vegum dómstóla eða ríkissaksóknara, breytir það því ekki að hér er um að ræða verkefni sem vinna mætti hvar sem er á landinu. Það er aftur á móti vandséð að unnt sé að færa dómstörf á milli héraðsdómstóla öðruvísi en að breyta varnarþingsreglum. Í 5. mgr. 16. gr. laga um dómstóla er ákvæði um hvernig dómari verði fenginn til að sinna afmörkuðu verki við annan dómstól en þann þar sem hann eigi fast sæti án þess að hann skipti að öðru leyti um starfsvettvang.

Í athugasemdum með ákvæðinu er tekið fram að þörfin á þessu gæti einkum komið upp annaðhvort í sambandi við mál þar sem héraðsdómur ætti að vera fjölskipaður en kostur væri ekki á dómara til þeirra á viðkomandi dómstóli eða ef allir dómarar væru vanhæfir til að fara með mál. Samkvæmt þessu ákvæði yrði þá dómstólaráð að ákveða hvaða dómara yrði falið slíkt verk. Slíkt mundi einnig þýða greiðslur á ferðakostnaði dómara af staðaruppbót.

Hvað varðar þau einkamál þar sem ekki fer fram munnlegur málflutningur, svokölluð áritunarmál, og þessu hugaði ég sérstaklega að í tilefni af fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda um verkefni sem unnt væri að færa til landsbyggðarinnar eða miðlægt á landsvísu, þ.e. í málum þar sem takmörkuðum vörnum verður komið við, er gert ráð fyrir að þau verkefni verði fengin aðstoðarmönnum héraðsdómstóla og sparast á móti sá tími dómara sem í málin hefðu farið ella. Þá er ég að ræða um frumvarpið sem er nú til meðferðar.

Hvort einn dómstóll á landsvísu geti tekið slík mál að sér skal ósagt látið en ég tel að dómstólaráð geti hugað að þessu atriði sérstaklega, auk þess sem allsherjarnefnd getur fjallað um það í sambandi við fyrrgreint frumvarp sem er til meðferðar og varðar breytingu á dómstólalögum.

Þá tel ég einnig að allsherjarnefnd geti fjallað um þau atriði sem hv. fyrirspyrjandi hefur nefnt hér hvað varðar verkefni til landsbyggðarinnar og jafnvel komið að því í nefndaráliti ef nefndinni þóknast svo.