138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

verkefni héraðsdómstóla.

187. mál
[18:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi að gefnu tilefni koma því á framfæri að allsherjarnefnd hefur frumvarp dómsmálaráðherra að sjálfsögðu til meðferðar eins og fram hefur komið, en það er hins vegar rétt að geta þess að efnisleg umfjöllun um málið er ekki hafin í nefndinni og málið er enn þá til umsagnar, þannig að það sem kemur fram í þessari umræðu og öðrum svörum sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur komið fram með hér í dag nýtist auðvitað í starfi nefndarinnar.

Varðandi verkefni dómstólanna ætla ég ekki að fara ofan í þau atriði sem hv. fyrirspyrjandi Gunnar Bragi Sveinsson nefndi, en ég vildi bara árétta það sem hefur komið fram við önnur tækifæri í þinginu að það er þegar orðin veruleg aukning á verkefnum fyrir dómstólana á öllum sviðum eftir því sem mér skilst, á öllum sviðum, öllum málaflokkum. Það er fyrirsjáanlegt að verkefnaaukningin mun halda áfram næstu missiri og við því verður auðvitað að bregðast.