138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

verkefni héraðsdómstóla.

187. mál
[19:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra og þingmönnum fyrir þátttökuna í henni og ráðherranum fyrir svör hennar.

Ég deili ekki þeirri skoðun með hv. þingmanni sem talaði síðast að yfirstjórnin öll þurfi að vera á einum stað. Það getur vel verið eðlilegt að ákveðin yfirstjórn sé á einhverjum ákveðnum bletti, hins vegar tel ég mjög mikilvægt að dómstólarnir þar sem þeir eru og eins og þeir vinna í dag, fái tækifæri til að starfa þannig áfram, þ.e. að þeim störfum sem þarna er verið að tala um, svo ég komi bara beint að því, verði ekki „offrað“ svo ég noti það ljóta orð, frú forseti.

Ég vil benda á að störf sem þessi — þetta eru mjög sérhæfð störf sem hlaða hins vegar utan á sig mörgum öðrum störfum, störfum sem varða lögmannsstofur, innheimtufyrirtæki og hitt og þetta, og það skiptir gríðarlegu máli að þessi störf séu til staðar sem víðast á landinu og ekki síst á landsbyggðinni.

Ég tek undir það og fagna orðum ráðherra varðandi skiptingu á verkefnum og annað en ég held að það þurfi ekki að vera þannig að þetta sé allt á einum og sama staðnum. Það má hugsa sér að skjalavinnslan sé hjá einum dómara, úti á landi þess vegna, þetta hjá öðrum dómara o.s.frv. Við verðum einfaldlega að deila verkefnunum til að styrkja þessar stofnanir og ég vona að niðurstaðan verði sú að við förum í það að deila þessum verkefnum, deila byrðunum og skapa dómstólunum það umhverfi (Forseti hringir.) sem þeir þurfa til að sinna sínum verkefnum.