138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

verkefni héraðsdómstóla.

187. mál
[19:04]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil í rauninni bara koma inn á það að í því frumvarpi sem til meðferðar er í allsherjarnefnd er ekki endilega gert ráð fyrir því að starfsstöðvum verði fækkað, það er beinlínis ekki gert ráð fyrir því að dómurum fækki og það hefur reyndar komið upp úr dúrnum, eins og fram er komið í sölum Alþingis, að frekar þarf að fjölga þeim.

Ég tek undir það að auðvitað þarf að huga að starfsskilyrðum á landsbyggðinni, það er mikilvæg umræða sem þarf að taka í þessu sambandi. En ég vil í þessu máli benda á að dómstjóri fyrir sameinaðan héraðsdómstól þarf ekki endilega að vera staðsettur á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. með því að búa til eina stofnun, héraðsdómstóll er ein stofnun, erum við einmitt ekki að tala um það að Héraðsdómur Reykjavíkur verði ein stofnun með starfsstöðvar víða um landið heldur er þetta héraðsdómur fyrir allt landið þar sem dómstjóri getur þá verið staðsettur hvar sem er á landinu.