138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það kemur verulega á óvart að fara eigi þá leið í dag að vera með kvöldfund og hugsanlega næturfund. Það er ekki gert í samráði við stjórnarandstöðuna, þannig að því sé algerlega haldið til haga. Hér er ríkisstjórnin eða stjórnarmeirihlutinn klárlega að fara á svig við það sem hefur verið lýst yfir í þingsal æ ofan í æ, að hér eigi að vera samráð og samstaða um hlutina. Það hefur verið tækifæri til að ræða þetta við stjórnarandstöðuna og formenn þingflokka hennar en það hefur ekki verið gert þannig að ég mótmæli þessu harðlega. Ég krefst þess að þeir sem munu samþykkja þessa tillögu verði hér í kvöld og nótt ef þess þarf til að fjalla um þetta mál og þau mál sem eru á dagskrá. Það er ekkert sem liggur á, það er ekkert sem liggur fyrir í dag þannig að það þurfi að fara þessa leið og því mótmæli ég harðlega, frú forseti.