138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:46]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég kem upp til að biðja forláts vegna þess að ég hafði hæstv. forseta fyrir rangri sök. Ég var föst í gömlum lögum um þingsköp sem hafa náttúrlega tekið breytingum og það er rétt sem forseti benti á að hér má koma upp tvisvar og tala í eina mínútu um atkvæðagreiðsluna. En ég vil leggja það til í þessari umræðu að við höfum fundina eins langa og eins marga og við mögulega getum, ræðum málið til hlítar, verum hér í vinnunni eins og aðrir sem vinnu hafa. (Gripið fram í.) Förum í gegnum málið, tökum það út í febrúar ef því er að skipta, það skiptir ekki máli, (Gripið fram í.) en það vill þannig til að þingmenn ráða því sjálfir hvenær þeir taka til máls, um hvað og hvernig (Gripið fram í.) og því geta aðrir hv. þingmenn ekki stjórnað (Gripið fram í.) þótt þeir vilji gera það af góðum hug, ég efast ekkert um að þeir gera það alltaf af góðum hug. En það hefur lengi verið þannig að hver þingmaður er sjálfráður um hvenær hann talar og hvenær hann talar ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)