138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hvatti til þess að haldnir yrðu margir og langir fundir. Ég vænti að í því hafi falist fyrirheit um að hv. þingmaður og félagar hennar í stjórnarliðinu ætli að taka til máls. Eða eru þetta kannski fundir sem aðeins stjórnarandstaðan á að taka þátt í? Treysta menn sér ekki til þessarar umræðu lengur? Finnst ríkisstjórnarliðum ekkert hafa breyst í þessari umræðu, að ekkert nýtt hafi komið fram? Finnst mönnum ekki taka því að ræða ábendingar sem komið hafa fram, jafnvel eftir að fyrri umræða hófst? Hv. þingmaður sagði að hverjum þingmanni væri sjálfrátt hvort þeir tækju til máls eða ekki. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Ég hef aldrei ímyndað mér að þótt ég hafi heyrt margt skringilegt koma frá stjórnarliðum, þá sjaldan þeir hafa tekið til máls í þessu máli, að það hafi verið einhvers konar ósjálfráð hreyfing. Ég hef alltaf gengið út frá því að það hafi verið vilji þeirra að taka til máls með þeim hætti sem þeir hafa gert. En ég hvet hv. þingmenn til að manna sig upp í að ræða við okkur um þetta mál og sitja ekki eins og atkvæðavélar, (Forseti hringir.) lengja fundi og taka ekki þátt í lýðræðislegri umræðu með eðlilegum hætti.