138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er þá rétt að segja það vegna orða hæstv. fjármálaráðherra að hann virðist vera einn á sjó því að þeir sem eiga að vera með honum í verkunum hafa lítið sést í salnum í þessari umræðu og hafa helst ekki tekið þátt í henni.

En ég vil leggja eftirfarandi til, frú forseti, í ljósi þeirrar dagskrár sem er fyrir framan okkur. Hér eru til umræðu fjáraukalög, ráðstafanir í skattamálum og tekjuskattur. Nú liggur það fyrir og hefur m.a. komið fram hjá Dominique Strauss-Kahn og fleirum að afgreiðsla Icesave-málsins tengist ekki afgreiðslu á samvinnunni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir stakk upp á því áðan að við gætum fært Icesave-málið fram í febrúar. Í sjálfu sér er það ekki galin hugmynd í ljósi orða Dominique Strauss-Kahn, í ljósi afgreiðslu Norðmanna nú á dögunum og í ljósi þess að allt sem ríkisstjórnin hefur sagt að hún mundi gera, að hún mundi ganga frá þessu máli einn, tveir og þrír, hefur reynst rangt. Það hefur reynst rangt að ekki sé hægt að fara í endurreisn bankanna. Það hefur reynst rangt að ekki sé hægt að snúa sér að fjármálum heimilanna. Það hefur reynst rangt að ekki sé hægt að vinna að endurreisn íslensks efnahagskerfis fyrr en Icesave-samningurinn er afgreiddur. Þess vegna eigum við auðvitað að hlusta á það (Forseti hringir.) sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur sagt og fara að ráðum fjármálaráðherrans og snúa okkur að þeim málum (Forseti hringir.) sem skipta máli, sem eru fjáraukalög og lög (Forseti hringir.) um skattabindingar.