138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan ræða þessa atkvæðagreiðslu. Ég vildi líka nota tækifærið til að koma því á framfæri að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og stjórnarandstöðunnar víkjum okkur ekki undan því að eiga orðastað við hv. þingmenn stjórnarflokkanna eða hæstv. ráðherra í umræðu um Icesave og væri gott t.d. eins og bent hefur verið á ef hæstv. samgönguráðherra tæki þátt í þeirri umræðu. Hann hefur ekki gert það, hann hefur ekki sést í þeirri umræðu. Við vitum ekkert um skoðanir hans á þeim málum, hvaða rök hann hefur fyrir sínu máli í sambandi við Icesave. Og ég verð að segja það í tilefni af orðum hæstv. samgönguráðherra að það lítur út fyrir að fyrstu 18 mánuðina sem hann var samgönguráðherra hafi hann verið með höfuðið grafið í einhverri holu upp á Vaðlaheiði í staðinn fyrir að taka þátt í stjórnarstörfum. Hvar liggja tillögur hans um viðbrögð við yfirvofandi bankakreppu sem hann ætlar að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um? Var Samfylkingin ekki í ríkisstjórn? (Forseti hringir.) Var hæstv. samgönguráðherra ekki í ríkisstjórn þá? Var hann algerlega sofandi?