138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við ræðum um það hvort efni séu til þess að hafa fund langt fram á kvöld og eftir atvikum inn í nóttina um Icesave. Það er ekki nema eðlilegt að menn spyrji sig þessarar spurningar vegna þess að við höfum fengið vísbendingar um það undanfarna daga að það liggi ekkert sérstaklega mikið á í Icesave-málum. Bæði er það að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og utanríkisráðherra Noregs hafa sagt að allur aðgangur sé greiður að lánunum sem um ræðir. Eftir situr þess vegna spurningin um það hvers vegna ríkisstjórnin er að setja á næturlanga fundi og kvarta undan því að hún komi ekki öðrum málum á dagskrá. Mig langar til að óska ríkisstjórninni til hamingju með það að í fyrsta sinn í dag á þessu þingi er hún komin með mikilvæg mál á dagskrá. Það er sérstök ástæða til að fagna því og við skulum einmitt fara bara að ræða þau mál. Þetta eru skattamálin, þau eru í dag í fyrsta sinn á þessu þingi á dagskrá og það er kominn 26. nóvember. Það er 26. nóvember sem ríkisstjórninni tókst loksins að koma málum sem skipta þjóðina máli á dagskrá. Reyndar er hún búin að afgreiða tvö frumvörp á þessu þingi, það er líka ástæða til að óska henni til hamingju með það.