138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:07]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er merkileg mótsögn í gangi varðandi þörfina á þeirri umræðu sem á að koma til atkvæða, tímalengdin, hér á eftir. Annars vegar tala stjórnarliðar um að það sé svo brýnt að ræða þetta mál að menn þurfi að vera viðstaddir og það þurfi að tryggja að hér sé öll ríkisstjórnin og allt stjórnarliðið til að hlusta en í hinu orðinu tala þeir um að það sé annað brýnna að ræða og þessu megi fresta fram í febrúar. Ég segi fyrir mig að ég hef tjáð mig í málinu við nokkur tækifæri fyrr í sumar. Málið hefur verið til umræðu í sex mánuði. Það er ekki margt ósagt af minni hálfu í þessu máli. Mér finnst sjálfsagt að skapa svigrúm fyrir þá sem vilja halda umræðunni áfram þó að það sé fram á nætur, en ég sé ekki ástæðu til að halda vöku minni mjög eftir allar þær ræður sem haldnar hafa verið og fluttar, m.a. af mér og fleirum hér. Ég greiði atkvæði með því að þingfundur verði heimilaður fram eftir kvöldi og inn í nóttina ef þarf.