138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er áhugavert hér í umræðu um atkvæðagreiðslu um kvöldfund að enginn hefur gert tilraun til þess að útskýra af hverju kvöldfundur er nauðsynlegur í sambandi við þetta Icesave-mál. Enginn hefur komið hingað upp og gert tilraun til að útskýra af hverju það liggur á að knýja málið í gegn. Ef einhver hv. þingmaður hefur rök fyrir því þá lýsi ég eftir þeim og bið viðkomandi að koma hingað upp. Það er alveg rétt sem hæstv. fjármálaráðherra benti á að það er kominn 26. nóvember. Ríkisstjórnin er fyrst núna að koma með skattapakka sinn inn í þingið og enginn í röðum stjórnarandstöðunnar hefur vikist undan því að ræða þau mál. En það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar að það eigi að taka Icesave-málið fyrir fyrst, það er þeirra eigin ákvörðun og það sem við höfum boðið fram er að setja Icesave-málið til hliðar, geyma umræðuna um það og taka þau mál sem hæstv. fjármálaráðherra réttilega benti á að við þurfum að tala um á dagskrá.