138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að beina fyrirspurn að hv. þingflokksformanni Vinstri grænna. En áður en ég byrja á því ætla ég að koma með stutta athugasemd við hv. þm. Guðbjart Hannesson sem furðaði sig á því af hverju hann var beðinn um að svara fyrir Gordon Brown. Ég skal upplýsa það. Það er vegna þess að hann hefur talað í allt sumar og allt haust eins og hans sérstaki talsmaður. Það er kannski ástæðan fyrir því.

Varðandi það sem ég ætlaði að spyrja um — við höfum rætt mikið um ummæli hæstv. forsætisráðherra í Reykjanesbæ um helgina varðandi Suðvesturlínu. Ég átti orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um það í fyrradag og ummæli hæstv. forsætisráðherra voru þau að hún boðaði þúsundir starfa við stóriðju- og virkjunarframkvæmdir á næstu mánuðum, við Búðarhálsvirkjun, Straumsvík og Helguvík. Ég óskaði eftir því hvort hæstv. fjármálaráðherra gæti staðfest að þar talaði hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, eins og maður gerir yfirleitt ráð fyrir þegar forsætisráðherra talar. En það er alveg deginum ljósara miðað við þau uppþot sem ummæli hæstv. forsætisráðherra hafa valdið að það logar allt stafnanna á milli innan ríkisstjórnarinnar. Síðast birtist grein á mbl.is í gær eftir Skúla Thoroddsen samfylkingarmann, fyrrverandi frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins, þar sem hann sendir Svandísi Svavarsdóttur vægast sagt tóninn. Hann spyr hvort hún sé annaðhvort veruleikafirrt eða vanhæf vegna þessa máls og hvort hún sé ekki með í ríkisstjórninni, hvort hún sé utan eða innan þingsins. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvað honum finnist um þessi ummæli, hvort við sem höfum áhyggjur af þessu verkefni eigum það á hættu að þetta fari allt saman upp í loft út af innanmeinum í ríkisstjórninni. Ég bið hann um að svara mér því (Forseti hringir.) þegar það er svo augljóst að liðsmenn ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) lýsa á hana vantrausti trekk í trekk (Forseti hringir.) í opinberri umræðu.