138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég er með nokkrar fyrirspurnir til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Telur hv. þingmaður að eitthvert svigrúm sé til breytinga á frumvarpi um Icesave sem á að taka fyrir í nefnd? Ef svo er ekki, hvers vegna á þá að taka það fyrir í nefnd? Er það ekki bara tímaeyðsla og lýðskrum að segja að þingið hafi eitthvað með þetta mál að gera þegar hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt opinberlega og hér í þingsal að ekki sé svigrúm til breytinga? Ætlar hv. formaður fjárlaganefndar að láta beygja sig þannig? Telur hv. formaður fjárlaganefndar að við getum staðið við þær skuldbindingar sem fyrirliggjandi Icesave-vextir leggja á þjóðina? Búið er að reikna það út að það verði um 79 þúsund Íslendingar sem greiða allan sinn tekjuskatt árlega eingöngu í vexti af Icesave.