138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (ber af sér sakir):

Virðulegi forseti. Ég nota þennan lið af því að ég þekki engan annan betri í þingsköpunum en hv. þm. Guðbjartur Hannesson fór fram á afsökunarbeiðni af minni hálfu. Ég get alveg beðið hv. þingmann afsökunar á því ef ég hef sært tilfinningar hans. En ég ætla ekki að draga það til baka að mér finnst hann hafa verið ötulli talsmaður Breta í þessu máli upp á síðkastið en íslenskra hagsmuna og ætla ég að rökstyðja það með eftirfarandi:

Í 1. umr. um þetta mál sagði hv. þingmaður að hann hefði ekki haft trú á þessum fyrirvörum. Hann hefði laumað fyrirvörunum inn í skjóli nætur í sumar til þess að lenda málinu, hann hefði fallist á þá. Síðan hefði hann aldrei haft trú á þessu en sagði jafnframt — og undir það tekur Gordon Brown í bréfi til hæstv. forsætisráðherra — að fyrirvararnir væru betri í þessu frumvarpi (Gripið fram í.) en þeir voru í sumar.

Þess vegna vil ég biðja hv. þingmann afsökunar á því ef ég hef sært tilfinningar hans en ég vildi útskýra hvers vegna ég sagði þetta. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ég sagði líka að ég vissi ekki um betri lið en þennan í þingsköpum til að svara þessu.