138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[11:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér og eiga þessa umræðu við mig, en skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eru efni í sérstaka umræðu og mun hún vitanlega fara fram hér við framlagningu og umfjöllun þeirra mála. Það er hins vegar full ástæða að mínu mati til að ræða sérstaklega þá skatta sem stendur til að leggja á ferðaþjónustuna. Af hverju vil ég gera það? Jú, vegna þess að það er trúlega það sem síst ætti að skattleggja í dag. Ég vil á þessari stundu þakka þeim sem börðust gegn því að lagður yrði skattur á gistingu og tekið upp nýtt komugjald, sem ég tel að hefði haft miklar og hræðilegar afleiðingar fyrir þessa grein. Ég held að hæstv. ráðherra eigi þar hlut að máli. Skattar sem boðaðir eru, svo sem hækkun á virðisauka af sölu veitinga á veitingahúsum o.fl. ásamt nýjum kolefnisskatti, eru tilefni til þessarar umræðu. Færa má rök fyrir því að eðlilegt kunni að vera að þeir sem veita sér þann lúxus að fara út að borða greiði hærri skatt í því umhverfi sem við lifum við í dag en það er hins vegar ekki sjálfgefið og er ég ekki alveg sammála því. Það er sérkennilegt að greina á milli þeirra sem setjast inn á kaffihús og panta sér hamborgara og þeirra sem panta sér mat í sjoppu. Þá er ljóst að hækkun skattsins skekkir ekki bara samkeppnisstöðuna innan lands milli einstakra aðila heldur líka gagnvart öðrum löndum. En benda má á að Finnar ætla að lækka eða hafa lækkað virðisauka af þessari starfsemi, m.a. til þess að draga að ferðamenn.

Kolefnisskattur mun leggjast á flug, rútur, bílaleigubíla o.s.frv. og geta ferðaþjónustuaðilar lítið gert annað en að hækka verð og auka þannig kostnað viðskiptavina sinna. Ég tel það rangt að leggja þessa skatta á í dag því að þeir geta valdið varanlegu tjóni á markaðssetningu Íslands sem hagstæðs áfangastaðar og mögulega búið til tap fyrir ríkissjóð í stað aukinna tekna. Við þekkjum flest hvernig þessi atvinnugrein hefur vaxið og sífellt skilað hærri tekjum til samfélagsins. Ferðaþjónustan er einn af vaxtarbroddum íslensks atvinnulífs en um leið viðkvæmari fyrir breytingum en margar aðrar atvinnugreinar vegna samsetningar viðskiptavinanna og síbreytilegs samkeppnisumhverfis. Ferðaþjónustan keppir á markaði þar sem afurðin er ekki endilega mælt í verði á kílói eða lítra heldur á hvern ferðamann. Frú forseti, við erum á rangri leið. Nú á að nýta tækifærið og blása til sóknar í ferðaþjónustunni. Ríkisvaldið á nú við gerð fjárlaga að auka fjárveitingar til markaðsstarfs og leita til hagsmunaaðila og biðja um að þeir leggi einnig í það verkefni.

Af hverju segi ég þetta? Jú, við eigum í harðri samkeppni við önnur lönd um ferðamennina. Skoðum nokkrar staðreyndir: Þjóðverjar hafa lækkað virðisaukaskatt á gistingu. Finnar lækka virðisauka á gistingu og veitingar. Svíar bæta við einum milljarði í landkynningu. Kanaríeyjar stórauka fjármuni í markaðsstarf, eins og við höfum séð. Flugvellir á Bretlandi bjóða félögum mikinn afslátt ef þau vilja lenda þar áfram. Sama má segja um Holland. Þar eru mjög góð tilboð til flugfyrirtækjanna.

Ferðaþjónustan á í mikilli samkeppni en rannsóknir og reynsla þeirra sem starfa í ferðaþjónustu sýna að ef verð hækkar um 2%, fækkar ferðamönnum að sama skapi um 2%. Ef við miðum við 500 þúsund ferðamenn, sem er u.þ.b. sá fjöldi sem heimsækir Ísland, yrði fækkun ferðamanna um 10 þúsund ef þetta yrði niðurstaðan. Kannanir sýna að gjaldeyristekjur af hverjum ferðamanni eru um 300.000 en vitanlega er einhver kostnaður á móti þannig að ég ætla að miða hér við 150.000 kr. í gjaldeyristekjur af hverjum ferðamanni, sem er þó örugglega of lágt. Ef ferðamönnum fækkar um 10 þúsund vegna tveggja prósenta eða skattahækkana, svo dæmi sé tekið, eða ef við tölum bara um 1% og miða við 150.000 kr., munu gjaldeyristekjur lækka um einn og hálfan milljarð. Ef þeim fækkar um 1%, sem eru þá 5.000 ferðamenn mundi það þýða að gjaldeyristekjur lækkuðu um 750 milljónir, sem er væntanlega u.þ.b. það sama og ferðaþjónustunni er ætlað að bera af þeim skattahækkunum sem boðaðar eru.

Frú forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, rannsóknir og reynsla þeirra sem starfa í ferðaþjónustu sýna að ef verð ferðar hækkar um 2%, fækkar ferðamönnum um 2%. Þessar tölur byggja allar á upplýsingum sem liggja fyrir. En hvað ef við snúum þessu við? Hvað þarf marga ferðamenn til að standa undir auknu markaðsstarfi? Ef við miðum við að hver ferðamaður skili 150.000 kr. nettó í auknar gjaldeyristekjur, sem er örugglega of lítið, má segja að það þurfi um 600 ferðamenn eða þrjár fullar flugvélar til þess að skila 100 milljónum í auknu markaðsstarfi. Hvert prósent í fjölgun skilar þannig um 750 milljónum í auknar gjaldeyristekjur, ef við miðum við þær upplýsingar og forsendur sem ég hef og er víða hægt að ná í.

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin er á rangri leið. Samkeppnin hefur líklega sjaldan verið meiri og harðari. Hvað sem síðar verður eigum við ekki að auka skattheimtu á ferðaþjónustu heldur blása til sóknar. Þeir litlu fjármunir sem ríkisvaldið ætlar að setja í markaðsstarf munu allir tapast og meira til, muni ferðamönnum fækka. Stóraukið markaðsstarf mun hins vegar fjölga ferðamönnum og stórauka tekjur ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Hér þarf að horfa til framtíðar og styrkja sig í samkeppninni.