138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[12:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Gunnari Braga Sveinssyni kærlega fyrir að vekja máls á þessu efni hér í dag, sem er mikilvægt. Menn skulu ekki furða sig á því að þetta mál sé rætt núna þar sem upplýsingar frá ríkisstjórninni varðandi hvernig haldið skuli á málum eru ekki komnar fram hér í þinginu heldur les maður einfaldlega um þær í blöðunum og fjallar kannski um það á nefndarfundum. Það er ekki skrýtið að menn í ferðaþjónustunni hafi svitnað eilítið þegar fréttir bárust af þessum komugjöldum, og eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson minnist á fækkar ferðamönnum um 2% ef verð til þeirra hækkar um 2%. Það er því ekkert skrýtið og hæstv. ráðherrar skuli ekki furða sig á því að hv. þingmenn í þessum sal hafi áhyggjur af slíkum áformum. Það er vel ef þau hafa verið sett til hliðar og sýnir greinilega að umræðan sem fer fram í nefndum Alþingis og af hálfu hagsmunaaðila skilar einhverjum árangri.

Hins vegar hef ég talsverðar áhyggjur af því að verið er að demba þessum skattahækkunum allt of seint í loftið og því miður ber ríkisstjórnin ekki gæfu til þess að hafa framtíðarsýnina skýra. Þetta mikla gullegg, ferðaþjónustan, er því búin að gefa út alla verðlagningu fyrir næsta sumar. Það er byrjað að selja ferðir fyrir lifandis löngu, sumarið er sem betur fer að verða fullbókað hjá mörgum í ferðaþjónustunni. En hverjir taka á sig skellinn þar sem búið er að hækka skattana? Er það ekki einmitt ferðaþjónustan? Við ætluðum að horfa á afkomu hennar, eins og hv. þm. Magnús Orri Schram benti hér á. Hækkunin á virðisaukaskattinum t.d. á útseldum mat hjá ferðaþjónustuaðilum skiptir verulega miklu máli. Það skal því ekki horft fram hjá því og menn geta ekkert barið sér á brjóst fyrir að hafa bjargað ferðaþjónustunni með því að slá af einhverjar hugmyndir um komugjöld þegar verið er að hækka skattana heilmikið á þá grein sem og aðrar. Menn þurfa að tala um hlutina eins og þeir eru, af hreinskilni. (Forseti hringir.) Ég er algjörlega sammála því sem hér hefur komið fram, okkur ber að efla ferðaþjónustuna með það í huga að auka hér gjaldeyristekjur.