138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[12:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Uppbygging ferðaþjónustu á Íslandi hefur vaxið mjög hratt undanfarin ár og fjöldi ferðamanna til landsins hefur margfaldast. Lágt gengi krónunnar hefur enn frekar ýtt undir komu ferðamanna til landsins og aukið neyslu þeirra og verslun mikið, sem skipt hefur miklu máli í efnahagslegri uppbyggingu þjóðarinnar. Það ánægjulega er og verður ekki frá okkur tekið að eftir sem áður mun náttúrufegurð Íslands, fjöll, firðir og fossar, kyrrð, víðerni og ósnortið umhverfi halda áfram að draga til sín ferðamenn sem kunna að meta sérstöðu landsins og þá fjölbreyttu ferðamöguleika og þjónustu sem vaxið hefur í gegnum árin. Við eigum fjöldann allan af fagfólki og áhugafólki í samtökum ferðaþjónustunnar og í ferðamálafélögum sem vinna að því að þróa fjölbreytta ferðaþjónustu. Þar má nefna samspil ferðaþjónustu við umhverfið, mat, menningu og sögu, heilsueflingu og atvinnulíf landsins. Markaðsstofur landshlutanna verða efldar til að sinna örum vexti ferðaþjónustunnar og markaðssetning landsins verður aukin. Búast má við auknu álagi á náttúru og umhverfi vinsælla ferðamannastaða og nauðsynlegt er að ríkið eyrnamerki tekjustofna ferðaþjónustu til uppbyggingar og bættrar aðstöðu á áfangastöðum ferðafólks um land allt.

Ferðaþjónustan, sem og allir landsmenn, mun þurfa að taka á sig auknar álögur meðan við erum að koma okkur upp úr skuldasúpunni. En auknar tekjur greinarinnar koma enn til góða við þessar aðstæður. Framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi mun byggjast á gæðum og sérstöðu landsins, fagmennsku og sérþekkingu, og ferðaþjónustu í góðri sátt við náttúruna og umgengni við allt landið. Samkeppnishæfni Íslands ræðst af þessum þáttum og við munum keppa í gæðum en ekki í fjölda ferðamanna í framtíðinni.