138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[12:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu. Það var tvennt sem sló mig aðeins út af laginu, það var í fyrsta lagi að hæstv. ráðherra talaði um nefnd sem fjallar um umhverfisgjöld og kannast ég vel við það. Hv. þm. Magnús Orri Schram talaði um hugsanlegt komugjald. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki örugglega sami hluturinn sem verið er að tala um. Það virðist alla vega eiga að bæta enn þá meiri gjöldum eða sköttum á þessa grein. Hvort sem það gerist nú á næstu vikum eða mánuðum, virðist það vera planið.

Hins vegar var markmið mitt með þessari umræðu að vekja athygli á þeim staðreyndum að aukin skattheimta og auknar álögur á ferðamenn draga úr fjölda þeirra. Hvort sem við viljum horfa á gæði eða fjölda þurfa þeir nú að koma til landsins, blessaðir ferðamennirnir, ef við ætlum að geta selt þeim einhverja hluti eða þjónustu.

Ég vil bara benda á það sem ég reyndi að draga fram áðan, að það er betra að setja stóraukna fjármuni í markaðsstarfið, sækja ferðamennina og fá þannig tekjur af þeim en að skattleggja þá. Reynsla annarra, sem ég hef séð við að skoða þetta mál, sýnir að þegar þessi kostnaður hækkar, þegar ferðirnar verða dýrari, fækkar ferðamönnunum. Ég held að það sé töluvert langt í land með að við getum ábyrgst og gengið út frá því að við séum eingöngu að keppa hér í gæðum. Þangað til verðum við að treysta á að hér sé ákveðinn fjöldi ferðamanna og ákveðinn vöxtur. Ég óttast að verði þessar auknu skattheimtur og álögur á ferðaþjónustuna að veruleika muni draga hér úr ferðamönnum og það muni á endanum skaða þjóðarbúið meira en það skilar því. Þess vegna segi ég enn og aftur, frú forseti, við hæstv. ráðherra: Það er miklu skynsamlegra að setja stóraukna fjármuni í markaðsstarf og fjölga ferðamönnum, láta þá eyða meiri fjármunum á Íslandi, en að reyna að ná þessu í gegnum skattinn.