138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[12:25]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er greinilega einhver misskilningur í gangi meðal þingmanna, sérstaklega hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem tóku þátt í þessari umræðu, vegna þess að umræðan um komugjöld er í samráðsfarvegi með aðilum ferðaþjónustunnar í sérstakri nefnd sem ég nefndi hér áðan, sem er á vegum hæstv. fjármálaráðherra. Verið er að fara yfir það hvort komugjöld séu fýsilegur kostur eða önnur sértæk gjaldtaka á ferðaþjónustuna til þess að fara með þá sértæku fjármuni beint inn í uppbyggingu í ferðaþjónustu. Um það snýst þetta mál. Umræðan um komugjald kom því ekkert eins og þruma úr heiðskíru lofti, eins og hér var gefið í skyn. Ég held að hv. þingmenn sem gera sig breiða í þessum stól ættu að hafa upplýsingarnar örlítið betur á hreinu en þeir hafa haft í þessari umræðu, og er ég ekki að beina orðum mínum til hv. málshefjanda.

Það skiptir nefnilega öllu máli í því sem hér hefur komið fram að við gerum hvort tveggja: Við erum að vinna að öflugu markaðsstarfi fyrir íslensku ferðaþjónustuna á erlendri grundu. Ég nefni þar byltingarkennt frumvarp um Íslandsstofu sem á að fara með þessi mál af Íslands hálfu. Ég nefni einnig líka fjármuni á fjáraukalögum sem lagðir verða til og eru eingöngu brot af þeim fjármunum sem fara munu í markaðssetningu. Þeir eru þó til viðbótar í þann 150 millj. kr. pott sem er eingöngu fyrir þá mánuði sem við horfum núna til í markaðssetningu á íslenskri ferðaþjónustu. Ég nefni að nú er mikil uppbygging á markaðsstofunum um land allt. Við horfum til þess að byggja upp innviði í markaðsstarfi innan lands, sem skiptir líka gríðarlega miklu máli. Ég nefni líka að við erum nú að vinna af fullum krafti í áætlanagerð til að dreifa ferðamönnum betur um landið til að verja náttúruna sem ferðamennirnir koma til að sjá.

Við erum líka á fullu við að þróa vörur (Forseti hringir.) á þessu sviði þannig að ferðaiðnaður verði heilsársatvinnugrein hér á Íslandi. Við erum einnig komin langt í vöruþróun (Forseti hringir.) á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu í góðu samstarfi við (Forseti hringir.) Samtök ferðaþjónustunnar.