138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eg vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að taka til máls í þessari umræðu. Nokkur skortur hefur verið á því, eins og kunnugt er, að stuðningsmenn frumvarpsins létu í sér heyra við þessa umræðu og er áhugavert að fá tækifæri til þess að rökræða við þá um þessi mál. Tilgangur umræðna í þingsal hlýtur að vera rökræða en ekki einræður sammála einstaklinga. Það er því mikilvægt fyrir gang málsins og fyrir starfið hér í þinginu að fram komi mismunandi sjónarmið frá mismunandi fólki. Ég þakka því hv. þingmanni fyrir það.

Hv. þingmaður nefndi nokkur atriði sem ástæða væri til að gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi talaði hún um að engin lagarök hefðu komið fram varðandi það að of langt væri gengið í sambandi við ríkisábyrgðina gagnvart stjórnarskránni. Ég vísa á áhugaverða grein eftir Sigurð Líndal, sem birtist 19. nóvember um það efni, og vísa reyndar einnig á athugasemdir í nefndaráliti minni hluta (Forseti hringir.) sjálfstæðismanna í nefndinni.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hún telji að hæstaréttarlögmennirnir Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson (Forseti hringir.) og Indefence-hópurinn séu algjörlega á villigötum í athugasemdum sínum við frumvarpið sem hér liggur fyrir.