138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ekki af tilviljun að ég spurði um þessar tvær greinargerðir, annars vegar frá Indefence-hópnum og hins vegar frá hæstaréttarlögmönnunum Lárusi Blöndal og Stefáni Má Stefánssyni prófessor og reyndar einnig athugasemdir frá Sigurði Líndal. Þessir einstaklingar, bæði innan Indefence og síðan Lárus og Stefán, lista og fara í efnisatriðin í athugasemdum sínum með rökstuðningi og komast að þeirri niðurstöðu að lítið standi eftir af þeim fyrirvörum sem samþykktir voru 28. ágúst. Það er samhljóða niðurstaða annars vegar lögmannanna og hins vegar Indefence-hópsins.

Þeir fara yfir þetta lið fyrir lið og færa fram rök fyrir því hvers vegna þeir telji að lítið standi eftir. Í þessari umræðu, við 2. umr. frumvarpsins í þinginu, hefur að mínu mati ekki komið fram rökstuðningur fyrir gagnstæðri skoðun en þeirri sem þeir komast að, (Forseti hringir.) Stefán, Lárus og Indefence-hópurinn.