138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Óvissan sem ég nefndi hér áðan er sú óvissa sem við búum við og mesta áhættan er náttúrlega í veikri krónu. En við búum við þessa óvissu við alla okkar áætlanagerð og við getum ekkert verið viss um hvernig hlutirnir verða eftir 20 ár eða 10.

Af því að hv. þingmaður talar um að það sé líklegt að ég fari með rangt mál langar mig að vitna í viðtal við Má Guðmundsson seðlabankastjóra á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Þar segir hann að það sé mjög mikilvægt fyrir íslensk fyrirtæki að erlendir lánsfjármarkaðir opnist og hann telji að á næsta ári verði ríkið að fara í öfluga kynningu á landinu á erlendum mörkuðum. Er líklegt að slík kynning takist vel ef Icesave-málið er óleyst og við Íslendingar (Forseti hringir.) liggjum undir þeim ásökunum að við séum þjóð sem standi ekki við skuldbindingar sínar? (Gripið fram í.)