138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Lausn Icesave-deilunnar snýst um hag íslensku þjóðarinnar. Hún snýst um endurreisnarferli. Þetta er partur af púslinu sem við þurfum að setja saman til þess að koma okkur út úr þeim vandræðum og þeirri lægð sem við erum í. Þetta snýst um hag íslensku þjóðarinnar.

Það getur vel verið að það sé betra fyrir inngöngu í Evrópusambandið að vera búin að leysa þetta mál, en fyrst og fremst snýst lausnin á Icesave-deilunni um hag íslensku þjóðarinnar. Það sem við ræðum hér er partur af lausn á stóru vandamáli sem þjóðin þarf að glíma við.