138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir efnislega ræðu. Hún átti þátt í því í hv. fjárlaganefnd að taka þetta mál út án þess að hafa rætt fjögur nefndarálit frá efnahags- og skattanefnd. Þar kom m.a. fram að krónutölufrystingin hefur mjög furðuleg áhrif að því leyti að Landsbankinn getur borgað æ betur eftir því sem gengið fellur.

Hv. þingmaður leyfði sér að segja að væntingar til góðrar heimtu hefðu vaxið, sem þýðir það að hún hefur ekki lesið 4. nefndarálit minni hlutans í efnahags- og skattanefnd. Þar er einmitt sagt að með gengisfellingu krónunnar geti Landsbankinn borgað sífellt meira en gatið hjá Innlánstryggingarsjóði verði þá miklu stærra. Það er það gat sem við erum að ábyrgjast. Það hefur vaxið um 80 milljarða síðan 22. apríl. Hv. þingmaður leyfir sér að vitna til þess að staðan hafi batnað. Það sýnir greinilega að hún hefur ekki lesið nefndarálitið sem fylgir með hennar eigin nefndaráliti.