138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í nefndarstarfinu að Japan, sem hafði skuldsett sig um of, sat uppi með 1% hagvöxt í kjölfarið. Íslendingar gætu lent í því sama og þeir gætu lent í því að geta ekki borgað vextina. Hvað ætlar hv. þingmaður að gera við þjóð sína ef við getum ekki borgað vextina og komum sem vanskilamenn fram fyrir Breta og Hollendinga af því að hagvöxtur er enginn?

Leiðtogi Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sér ástæðu til þess 14. nóvember að koma fram og segja að Íslendingar hafi gengið til samninga eins og sakamenn. Hvaða skýringu hefur hv. þingmaður á því að fyrrverandi leiðtogi Samfylkingarinnar og hæstv. utanríkisráðherra kemur fram með þessa athugasemd, með þessa viðvörun? Hvað skýrir það að hún setur fram viðvörun til samfylkingarfólks um að eitthvað alvarlegt sé að gerast? Hvaða skýringu hefur hv. þingmaður á því framtaki (Forseti hringir.) fyrrverandi utanríkisráðherra?