138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum Icesave-frumvarp enn á ný. Verið var að greina frá mælingum á ræðutíma einstakra þingmanna í umræðum í morgun og ég verð að viðurkenna að ég hefði komið ansi illa út úr því ef ég hef verið tilgreindur sérstaklega vegna þess að þetta er í fyrsta skipti sem ég tjái mig í þessu máli og er þó búið að ræða það í þingsal hátt í sex mánuði. Mér hefur að mörgu leyti fundist vandasamt að mynda mér skoðun á þessu. Ég hef tekið þátt í því á göngum þingsins að reyna að finna einhverja lausn á þessu máli. Ég komst fljótt að þeirri niðurstöðu, þegar samningurinn var upphaflega lagður fyrir þingið í júní, að þetta væri slæmur samningur. Mér fannst ég greina það mjög víða á meðal þingmanna að þeir kæmust að þeirri sömu niðurstöðu. Ég tók því þátt í því að reyna að koma því í kring að settir yrðu fyrirvarar við þessa löggjöf sem við ræddum þá. Ég tel að málið hafi tekið stórkostlegum breytingum til batnaðar í meðförum þingsins hér í sumar þó að ég hafi verið fylgjandi því, og lagt það fram ásamt þingflokki framsóknarmanna, að við gengjum einfaldlega til samninga að nýju en sú tillaga var felld af þingmönnum.

Mér þykir þetta mál dálítið einstakt og furðulegt og um margt sérstakt og ég held að það sé ekki þess eðlis að við séum beinlínis með því eða á móti. Ég held að vandfundinn sé sá þingmaður hér inni, og kannski sérstaklega núna, vegna þess að nú eru hér einstaklega fáir þingmenn — ég held að sá þingmaður sé vandfundinn hér inni, úti á götunum eða á skrifstofum sínum á þessari stundu sem beinlínis hefur það að einhverju sérstöku metnaðarmáli að borga Hollendingum og Bretum þessar upphæðir. Ég held t.d. að það sé ekki endilega hápunktur á ferli hæstv. fjármálaráðherra að þurfa að standa að því núna að mæla fyrir frumvarpi þess efnis að við borgum slíkar fjárhæðir til Breta og Hollendinga og kannski einkar kaldhæðnislegt að hann skuli vera í þeirri stöðu miðað við hversu stór orð hann hafði um málið á móti því þegar hann var í stjórnarandstöðu.

En svona er þetta mál. Það er kannski ekki endilega við neinn að deila. Ég finn sjálfan mig a.m.k. ekki í því að gera neinum hér inni, neinum þingmönnum, upp þær skoðanir að vilja þetta eitthvað sérstaklega. Ég held því að við séum í raun og veru að deila um það hversu góður samningurinn er í ömurlegri stöðu og þar greinir okkur á. Við erum einfaldlega að deila um það á þessari stundu hvort lengra verði komist í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga eða ekki. Ég hef alveg skilning á þeim sem segja: Við komumst ekki lengra. Þeir segja væntanlega að sá samningur sem liggur fyrir með fyrirvörum — þó á vissan hátt hafi verið bakkað með þá í frumvarpinu sem nú liggur fyrir — sé þó betri en samningsdrög eða hvað það var, einhver drög að samkomulagi, sem lágu fyrir í október/nóvember fyrir ári þar sem gert var ráð fyrir 6,7% vöxtum og 10 ára afborgunartíma. Auðvitað er það sem við stöndum frammi fyrir núna betra en það. Gott og vel, þeir sem komast að þeirri niðurstöðu að ekki verði komist lengra hljóta að byggja það á einhverri sannfæringu, einhverjum rökum. En ég hlýt hins vegar, einfaldlega vegna þess að ég er í stjórnmálum og hef trú á sjálfum mér, að sjá litla ástæðu til að taka undir það vegna þess að mér finnast það margir gallar á frumvarpinu, það margir gallar á þessum samningi, að ég sé enga ástæðu til að taka undir það mat að ekki verði lengra komist. Ég hef heldur engar forsendur til að komast að þeirri niðurstöðu.

Ég vil líka segja af þessu tilefni, vegna þess að ég lít þannig á málið að við séum einfaldlega að deila um ákveðið stöðumat í frekar ömurlegu máli, að ég tek ekki undir mörg þau gífuryrði sem hafa fallið. Mér finnst verið að gera því skóna að menn séu að sinna öðrum hagsmunum en Íslands í þessu máli og ég skrifa ekki undir þær yfirlýsingar. Ég held að menn hafi verið að reyna að sinna hagsmunum Íslands en þetta sé einfaldlega mjög erfitt mál.

Nú kem ég að því hvernig ég ætla að rökstyðja að samt hefði verið hægt að ná betri niðurstöðu en nú liggur fyrir og þá útskýra af hverju ég sé mig tilknúinn til að vera á móti þessu.

Í fyrsta lagi verð ég með atkvæði mínu á einhvern hátt að lýsa því yfir að forsagan að þessu máli öllu saman er með ólíkindum. Þar brugðust bæði yfirvöld á Íslandi, Fjármálaeftirlitið á Íslandi, og líka yfirvöld í Bretlandi og ég vona að báðar þjóðirnar og Hollendingar dragi einhvern lærdóm af því. Einkafyrirtæki fór í það að safna innlánsreikningum af ævintýralegri stærðargráðu og yfirvöld í öllum löndunum brugðust. Þó að ég telji mikilvægt að Framsóknarflokkurinn axli alla ábyrgð — hann hefur að mörgu leyti gert það og farið í hispurslaust mat á allri þátttöku sinni í útrásarævintýrinu og öllu því sem leiddi til hrunsins — finnst mér fulllangt gengið, eins og gert hefur verið hér í þingsal, að hengja Icesave-skuldbindinguna og allan aðdraganda þess máls á hann. Þótt við tökum oft fullglöð í bragði á okkur alls konar syndir heimsins þá eigum við það ekki. Mér finnst fulltrúar Samfylkingarinnar hafa skautað fremur létt fram hjá því í umræðunni að þeir sýndu margir hverjir fáránlegt aðgerðaleysi í verki ef hægt er að komast svo að orði að taka ekki fyrr í taumana til að koma í veg fyrir þau ósköp sem við glímum nú við. Með því að greiða atkvæði á móti þessu ætla ég að sýna andúð mína á öllu því ferli.

Ég ætla líka að sýna andúð mína á því að þetta er óútfylltur tékki og ég tel að Alþingi eigi ekki að stunda þau vinnubrögð að gefa út slíkan tékka og sérstaklega ekki af slíkri stærðargráðu. Gott og vel, það getur vel verið að stjórnarliðar hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að gera annað, að viðsemjendur okkar taki einfaldlega ekki annað í mál o.s.frv. Ég tel það hins vegar óviðunandi og ég velti því upp: Hefði ekki verið miklu nær, burt séð frá því hvort það er einhver óskhyggja eða eitthvað annað, að gera fyrst upp búið, sjá hvað kæmi mikið út úr því og þegar því væri lokið yrði gefin út ríkisábyrgð á lántöku á eftirstöðvunum, til að greiða eftirstöðvarnar, og þá með vöxtum frá þeim degi. Þessi niðurstaða er gríðarlega óréttlát. Mér finnst líka að uppgjör og úthlutun eigna Landsbanka Íslands eigi að fara að íslenskum lögum en ekki eftir skilyrðum frá Bretum og Hollendingum. Ekki er hægt að túlka frumvarpið sem nú liggur fyrir öðruvísi en það séu mjög ströng skilyrði frá EFTA-dómstólnum. Við getum sem sagt ekki ákveðið þetta samkvæmt okkar lögum og það finnst mér óviðunandi.

Ég ætla líka með atkvæði mínu að koma þeim skilaboðum áleiðis til Breta og Hollendinga, sem maður hefur stundum viljað að væru í þingsal, svo að við gætum rökrætt við þá, og það hefur kannski skort í þessari umræðu — mig langar að sýna þeim andúð mína á óbilgirni sem þeir hafa sýnt í okkar garð. Mig grunar að flestir þingmenn séu þeirrar skoðunar að þeir hafi sýnt okkur óbilgirni. Maður veltir fyrir sér hvort ekki hefði verið rétt, eins og formaður Framsóknarflokksins á þeim tíma stakk upp á, að við einfaldlega kölluðum heim sendiherrann frá Bretlandi þegar Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum. Það er auðvitað mjög dramatísk aðgerð en hún hefði fært þetta mál á það diplómatíska stig sem það hefði þurft að vera á frá upphafi. Við sýndum ekki nógu hörð viðbrögð við óbilgirni Breta og Hollendinga strax í upphafi og höfum verið að súpa seyðið af því.

Mér finnst þetta gríðarlega óréttlátt mál og mér finnst að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi spurt ákveðinna grundvallarspurninga strax í upphafi umræðunnar þegar hann velti því upp hvað hefði gerst ef innlánsreikningarnir hefðu verið stærri? Hvað ef þetta hefði verið margfalt stærri upphæð? Hvað þá? Mér finnst að við hefðum þurft að gera miklu meira til að koma þessum sjónarmiðum áleiðis til Breta og Hollendinga. Við höfum eflaust gert talsvert af því en ég ætla með atkvæði mínu að segja þá skoðun mína að við höfum ekki gert nóg af því. Þeir hefðu þurft að takast á við þessa spurningu og ríki Evrópusambandsins þurfa líka að takast á við þessa spurningu: Vilja þau hafa regluverkið þannig að alls konar áhættusæknir, oft óprúttnir, eigendur einkabanka geti farið af litlu markaðssvæði inn á stærra og safnað innlánsreikningum á ábyrgð smáríkisins? Það sjá auðvitað allir að þetta regluverk gengur ekki upp og ég hefði viljað sjá Íslendinga halda þessum sjónarmiðum miklu sterkar á lofti og ég vona að við gerum það í framhaldinu. Ég tel líka að við hefðum átt að minna miklu betur á Brussel-viðmiðin í öllum þessum samningaviðræðum. Vel kann að vera að það hafi verið gert en ég tel að það hefði átt að gera það betur.

Mikið hefur verið rætt um það hér í þingsal að málstað okkar hafi ekki verið komið nægilega vel á framfæri. Fyrst við ákváðum að kalla ekki sendiherrana heim hefðum við alla vega átt að fara við fyrsta tækifæri með forsætisráðherra okkar á fund forsætisráðherra Breta og Hollendinga til að fara yfir þessi mál. Það er með ólíkindum að sá fundur skuli ekki enn hafa farið fram þrátt fyrir að við höfum átt í milliríkjadeilu við þessar þjóðir. Fundur æðstu ráðamanna okkar með æðstu ráðamönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur heldur ekki farið fram. Mér finnst það með ólíkindum og ég ætla líka að mótmæla því með atkvæði mínu.

Veigamesta atriðið í þessu öllu saman, í ljósi þess hversu óréttlátt þetta mál er, en þó líka í því ljósi að við verðum á einhvern hátt að axla ábyrgð á þessum gjörningi, er þó það hve mikla vexti við borgum af þessu, mér finnst það ósanngjarnt. Ég man eftir umræðunni í þingsal þegar neyðarlögin voru sett og ég tók þátt í því 6. október 2008. Þá var strax farið að tala um Icesave-reikningana og þá var talað á þann hátt að við þyrftum ekki að hafa miklar áhyggjur vegna þess að eignir kæmu allar upp í. Það hefur verið tilfellið, t.d. með uppgjör annarra banka, íslenskra, á erlendri grundu, að eigurnar hafa farið langleiðina upp í kröfur og við höfum fengið þau tíðindi núna að eigur Landsbankans geri það langleiðina.

Eftir stendur vaxtareikningurinn og mér finnst, miðað við það hvernig þetta mál er vaxið, miðað við það hvernig það sprettur úr óréttlátri og gallaðri löggjöf Evrópusambandsins eða rammalöggjöf hins Evrópska efnahagssvæðis, að við hefðum átt að fá miklu betri vaxtakjör eða þá sleppa við að borga vexti fyrr en fyrir liggur hversu háa upphæð við þurfum að borga. Mér finnst að við hefðum átt að ná mun betri árangri í þessu og þess vegna hyggst ég greiða atkvæði á móti frumvarpinu. Menn hafa ef til vill gert sitt besta en ég met það svo fyrir mína hönd og míns flokks, það er mitt sjálfsmat, að það hefði átt að vera hægt að gera betur.

En ef stjórnarliðar telja að ekki sé hægt að ná betri niðurstöðu þá samþykkja þeir þetta væntanlega og þá finnst mér mikilvægt að við beinum sjónum að framhaldinu. Hvað tekur við eftir að þetta hefur verið samþykkt úr því að við höfum ákveðið að gangast við þessum skuldbindingum á þessum forsendum? Í ljósi þess hvernig ég met þetta mál og hvernig það er vaxið — þetta er svokallað leiðindamál, þetta er svokallað skítamál, svo að ég noti óheflað alþýðumál til að lýsa því, í hjarta sínu er enginn sérstaklega mikið með þessu máli — vona ég að við sem gegnum þingmennsku munum í framhaldinu í sameiningu reyna að minnka skaðann. Eftir öllum þeim leiðum sem okkur eru tiltækar — þær eru sumpart í fyrirvörunum, þó að þeir hafi á vissan hátt verið útþynntir — verðum við að reyna að koma í veg fyrir að þessar óréttlátu skuldbindingar lendi á þjóðinni. Ég ætla, í því sem ég á eftir af ræðunni, að útlista hvaða leiðir ég tel mögulegar.

Í fyrsta lagi verðum við að vakta réttarstöðu okkar og við verðum að sækja allar mögulegar skaðabætur ef forsenda fyrir því skapast. Við erum að súpa seyðið af gölluðu regluverki og við verðum að vakta allar breytingar á því regluverki. Við verðum einfaldlega að fela ríkisstjórninni það með þingsályktun að fara í það verkefni. Ef eitthvert annað ríki lendir á næstu árum í svipaðri stöðu og Íslendingar en þarf ekki að súpa seyðið af slíkum skuldbindingum, þarf ekki að gangast í ábyrgð fyrir þær, eigum við að ganga á lagið og segja: Við ætlum ekki að sitja ein eftir með einhvern Svarta Pétur í þessu. Þarna eigum við að marka okkur stefnu og strategíu til að reyna að minnka með öllum hætti þessar skuldbindingar, helst að koma í veg fyrir að þær lendi á þjóðinni.

Við þurfum líka, og mér finnst það lítið hafa verið rætt í þingsal, að vakta allar mögulegar leiðir sem við höfum og okkur gefast til að skuldbreyta lánunum yfir í betri kjör. Ég minntist á það áðan hversu blóðugir þessir vextir eru og sérstaklega miðað við það hve málið er óréttlátt. Þetta er bara lánasamningur og ef betri kjör bjóðast á næstu árum eigum við að greiða lánið upp. Það er alla vega gott að í lánasamningnum er uppgreiðsluákvæði þannig að við getum greitt þetta upp hvenær sem er.

Við verðum svo að fara í það af ákveðni og festu, miklu meiri en sýnt hefur verið hingað til, að finna leiðir sem okkur bjóðast í réttarríkinu til að sækja fé til þeirra einstaklinga sem raunverulega stóðu að þessum skuldbindingum. Ég veit ekki hvort það er hægt en við verðum að reyna það svo að þeir sem stóðu að þessu axli ábyrgð á gjörðum sínum.

Það var nefnt í upphafi þessa máls að hugsanlega væri hægt að leita leiða til þess að hið endurreista bankakerfi, vegna þess að innlánstryggingarsjóður er á vegum bankakerfisins, greiði aukið gjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda til að standa straum af þessum kröfum. Ég hef ekki orðið var við að það hafi sérstaklega verið skoðað en það þarf að skoða.

Í ríkisbúskapnum þarf svo almennt að sjá til þess að skuldir þjóðarbúsins aukist ekki vegna þess að þetta er einungis hluti skuldanna og það þarf að sjá til þess að við drögum ekki of mikið á þau lán sem okkur bjóðast hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Norðurlöndunum og öðrum ríkjum. Það er lykilatriði í því að minnka skaðann í þessu. Að síðustu, sem er kannski það mikilvægasta vegna þess að þetta er lántaka í erlendri mynt, verðum við að fara í það af miklu meiri einurð en sýnd hefur verið hingað til að skapa gjaldeyri framtíðarinnar, efla atvinnulífið og efla vöxt gjaldeyrisskapandi atvinnu í landinu og þar eru mýmörg tækifæri. Ég legg áherslu á það, og hef lagt áherslu á það í ræðum, að við verðum í fararbroddi í uppbyggingu á grænni orkusparandi tækni. Án þess að ég vilji að gjaldeyririnn sem skapast af því og þær tekjur renni allar til Breta og Hollendinga held ég samt að við munum auka þjóðinni bjartsýni í þessum ömurlegu kringumstæðum ef við förum af festu og einurð í uppbyggingarverkefni af því tagi.

Ég held sem sagt, hæstv. forseti, að fjölmargar leiðir séu fyrir hendi til að minnka skaðann af þessu máli. Stjórnarliðar hafa bersýnilega, þeir eru ekki fjölmennir hér, komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði lengra farið í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga og ég harma þá niðurstöðu. En fyrst það er þeirra mat finnst mér — við hljótum öll að vera sammála um að þetta er ömurlegt mál og óréttlátt — að við eigum að reyna eftir fremsta megni að láta þetta mál ekki sundra þjóðinni heldur taka höndum saman í framhaldinu og reyna eftir öllum leiðum að draga úr skaðanum af því.