138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og staldra aðeins við það sem hann benti á að þegar samfylkingarfólk er ráðþrota í umræðunni þá gargar það alltaf að þetta mál sé á vegum Framsóknarflokksins. Ég vil rifja það upp að á síðustu tveimur árum var samfylkingarmaður bankamálaráðherra og Jón Sigurðsson, sem er fulltrúi Samfylkingarinnar í þeim stjórnum og nefndum sem hann var í, var bæði formaður Fjármálaeftirlitsins og varaformaður bankaráðs Seðlabankans. Ég tek því undir það með hv. þingmanni að það er mjög sérkennilegt þegar samfylkingarmenn fara að garga á Framsóknarflokkinn. Það gerðist síðast í morgun hjá hæstv. ráðherra sem segir manni að um er að ræða leik spunameistaranna til að koma sér frá málinu.

Hv. þingmaður kom inn á það hvernig á málinu hefði verið haldið frá upphafi. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að vitlaust var haldið á þessu máli alveg frá upphafi, alveg frá því síðasta haust, í heilt ár. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann, eftir að þessi breiða samstaða náðist á þinginu í sumar, hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að skynsamlegra hefði verið fyrir þingið að sameinast eins og hann er að hvetja okkur til að gera í framhaldi af þessu máli, hvort ríkisstjórnin hefði ekki átt að kalla stjórnarandstöðuna til og kynna fyrirvarana fyrir Hollendingum og Bretum.

Eins og hv. þingmaður kom inn á í máli sínu er það algerlega fyrir neðan allar hellur hvernig staðið var að þessu. Þetta gerist með þeim hætti að hæstv. forsætisráðherra skrifar bréf, hefur reyndar fengið svar sem varla er hægt að kalla svar, og birtir það ekki fyrr en tveimur vikum eftir að það kemur — hvort hv. þingmaður getur tekið undir að skynsamlegra hefði verið að nýta þá samstöðu sem náðist í sumar. Þá kláruðu menn þetta mál fyrst í gegnum fjárlaganefnd, þá náðist breið og góð samstaða og menn hefðu getað fylgt því eftir með þeim hætti.