138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann kom inn á það í ræðu sinni að menn hefðu átt að taka þetta yfir á hærra stig, yfir á diplómatískt stig. Málið hefur greinilega aldrei farið þangað og mér finnst ámælisvert að það skuli aldrei hafa komist upp á þetta hæsta stig eins og hv. þingmaður benti á í ræðu sinni áðan — ég deili þeim skoðunum með honum, að forsætisráðherrarnir skuli ekki hafa hist til að ræða þessa erfiðu milliríkjadeilu.

Það sem mér finnst dapurlegast við þetta mál er að við skulum vera að berjast innbyrðis sem eigum að standa saman. Við erum að berja hvert á öðru, við eigum auðvitað að standa saman og halda áfram að berjast fyrir rétti þjóðarinnar og rétti fólksins í landinu til að tryggja framtíð þess.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það, vegna þess að fyrri samningur var ekki miðaður neitt við Brussel-viðmiðin, sem var forsendan fyrir því að við færum í þessa samninga — nú er búið að skrifa inn í samningana að það sé viðurkennt af hálfu Íslendinga að Brussel-viðmiðin séu þar inni, að það sé tekið tillit til þeirra. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því, ef menn ætla að fara að taka það seinna upp og vísa til þeirra, að þá geti Bretar og Hollendingar sagt: Jú, þau eru þegar fyrir inni í samningunum.