138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir ræðu sem var um margt athyglisverð. Hann kom víða við og nálgaðist hlutina með öðrum hætti en margir aðrir hafa gert og ég fagna því. Hann fór m.a. yfir söguna.

Ég hjó eftir því að hann sagði að hann tæki ekki undir það sem sumir þingmenn, og þá aðallega í stjórnarandstöðunni, hefðu dregið fram að ríkisstjórnin hafi oftar en ekki talað fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga. Þessir stjórnarandstöðuþingmenn hafa m.a. verið úr Sjálfstæðisflokknum en ákveðnir þingmenn Framsóknarflokks hafa líka talað með þeim hætti. Þeir hafa sagt sem svo: Hefur ríkisstjórnin verið að tala máli okkar Íslendinga? Hefur hún ekki allt eins verið að tala máli Hollendinga og Breta? Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er hann sammála samflokksmönnum sínum, sumum hverjum, í þessu efni eða er hann eftir sem áður á þeirri skoðun að ríkisstjórn Íslands hafi haldið bærilega á þessum málum?