138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:09]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var í sjálfu sér ekkert að hallmæla neinum einstaklingum sem hæstv. fjármálaráðherra kaus að velja í samninganefndina. Ég var hins vegar að lýsa þeim sjónarmiðum að ef menn hefðu viljað skapa þverpólitískara eða breiðara eignarhald á þessu máli og þessari samningsniðurstöðu, reyna að koma í veg fyrir að við lentum í þeirri stöðu sem við erum í núna, svolítið tvístruð í þinginu, og þjóðin líka, hefðu menn átt að hafa það að uppleggi að þau stjórnmálaöfl sem að mörgu leyti bera stærstu ábyrgðina á því að þetta vandamál varð til og varð svona ógnarstórt — það eru fyrst og fremst þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar, það var á þeirra vakt sem þetta varð til — hefðu þurft að axla ábyrgð. Mér finnst það sterkt sjónarmið að samningamenn á vegum þessara flokka hefðu þurft að axla þá ábyrgð í meira mæli að reyna að leiða þetta mál til lykta.