138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Til að afstýra freklegum inngripum hæstv. forseta í ræðu mína ætla ég að segja strax í upphafi að ég er að tala um fundarstjórn forseta. Ég tel að hún hafi verið afleit áðan. Ég var varla búinn að hefja mál mitt með fáeinum orðum, sem ég þurfti að viðhafa til þess að koma að því sem ég vildi segja, sem laut að fundarstjórn forseta, þegar hæstv. forseti greip fram í fyrir mér og kom í veg fyrir að ég gæti flutt mál mitt.

Ég ætlaði einfaldlega að vekja athygli á því, og það skiptir máli, að við ræðum þetta mál í skugga mikilla hótana frá Evrópuþinginu, sem verður að setja í samhengi við þær fréttir sem komu í gærkvöld um að nú ætti að fresta umsóknarbeiðninni frá Íslandi varðandi ESB. Ég harma það ekki út af fyrir sig en þetta er nýr vinkill í málinu og nauðsynlegt að þessi mál séu skýrð til þess að greiða fyrir þessari umræðu. Mér sýnist að hæstv. utanríkisráðherra væri best til þess fallinn að gera okkur grein fyrir hvað hér er á seyði.

Það er óþolandi að þjóðþingið sé enn að ræða þetta mikilvæga mál í skugga hótana, fyrst var það frá (Forseti hringir.) Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, svo var það frá Norðurlöndunum og nú er það Evrópuþingið.