138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með mörgum hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Ég vil hvetja hæstv. forseta til þess að fresta umræðunni. Þá sendum við ákveðin skilaboð um að við látum ekki bjóða okkur þau vinnubrögð að það sé verið að kúga okkur hér og senda okkur einhver skilaboð. Ég minni á það að þegar við vorum að fjalla um málið og vinna fyrirvarana í sumar í fjárlaganefndinni sögðu bresk og hollensk stjórnvöld: „Við gefum ekki út nein komment á þessa vinnu vegna þess að við látum þjóðþingið vera í friði. Þetta er sjálfstæð þjóð með þjóðþing sem á að taka ákvarðanir án þvingana og hótana frá öðrum.“ Það verið að gera það núna. Það er verið að senda skilaboð frá Evrópuþinginu um að við eigum að klára þetta. Við eigum að standa saman að því. Það dapurlegasta sem ég upplifi hér inni er það að þessum aðilum, útlendingum, er að takast að sundra okkur sem þjóð.

Við eigum að standa saman sem þing og þjóð. Það er þess vegna sem við eigum að segja: Við frestum þessu og látið okkur í friði. (Forseti hringir.) Tökum síðan málefnalegar umræður í kjölfar þess.