138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað um þetta stærsta og viðamesta mál Íslandssögunnar, sem það er að mínu mati. Ég komst ekki í andsvar við samflokksmann minn, hv. þm. Guðmund Steingrímsson, en það var hins vegar mjög áhugavert að hlusta á margt það sem hann sagði. Það er gott að hlusta á það í andsvörum að fjármálaráðherra situr ekki bara hérna, hann er greinilega að hlusta á ræðu okkar þó að honum líki það misjafnlega vel.

Þó að ég hafi oft tekið mun harðar til orða en hv. þm. Guðmundur Steingrímsson gerði get ég tekið undir margt af því sem hann sagði. Ég hef tekið mér orðið landráð í munn og stend við það. Þó að maður geti verið sammála samflokksmönnum sínum um afstöðu í málum getur maður nálgast hlutina úr ólíkum áttum og ég get fullyrt að sú sé staðan með mig og hv. þm. Guðmund Steingrímsson.

Sú umræða sem fram hefur farið í dag og í síðustu viku hefur að langmestu leyti verið málefnaleg og yfirgripsmikil, enda er um að ræða geysilega stórt mál. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég hef saknað þess mjög hve lítið stjórnarliðar hafa tjáð sig í þessu máli. Í dag hefur þó hv. þm. Oddný Harðardóttir komið í ræðustól og svo talaði hv. þm. Guðbjartur Hannesson, sem hefur nú kannski verið sá sem mest hefur tjáð sig um það af þingmönnum, undir liðnum störf þingsins.

Ég held að flestir geti verið sammála mér um að það er alveg ótrúlegt hve margir vinklar eru á þessu máli og sífellt eru að koma fram nýir punktar. Þetta er málið sem við eyddum meira og minna öllu sumrinu í. Við ræddum það í sölum Alþingis og í nefndum í um tvo mánuði þar til stjórnarliðum tókst loksins að koma sér saman um ákveðna niðurstöðu í málinu og samþykkja það. Lykilatriðið í því að þingmenn stjórnarflokkanna gætu komið sér saman um að afgreiða málið voru hinir svokölluðu fyrirvarar. Við stöndum síðan frammi fyrir því að með frumvarpinu er verið að ógilda þá fyrirvara; það er verið að leggja þá til hliðar.

Hvað hefur eiginlega orðið um þann mikla hita og þær miklu tilfinningar sem maður fann hjá hluta stjórnarliða í sumar? Ég á óskaplega erfitt með að skilja hvað varð um þær. Við sátum heila helgi yfir því hvernig best væri að orða efnahagslega fyrirvara, leituðum okkur ráðgjafar hjá sérfræðingum og það var mikil vinna sem fór nánast í hvert einasta orð í efnahagslegu fyrirvörunum.

Við ræðum þessi lög, fyrst lögin sjálf og svo breytingarnar, frumvarp sem er breyting á lögum um heimild til hæstv. fjármálaráðherra til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu, til að geta staðið straum af þessum greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands, en alltaf koma upp nýir og nýir vinklar. Fréttin sem komin er inn á vefmiðla er nýr vinkill. Nú er Evrópuþingið komið út úr skápnum hvað varðar þann geysilega þrýsting sem verið hefur frá Evrópusambandinu. Það er búið að viðurkenna að tengsl eru á milli Evrópusambands-umsóknarinnar, sem Samfylkingin hefur sett á oddinn, og Icesave-málsins. Það hafa menn verið að pukrast með. Það hafa Vinstri grænir alls ekki viljað viðurkenna. Þeir hafa alls ekki viljað viðurkenna að með því að segja já við Icesave-málinu sé verið að segja já við Evrópusambandinu.

Það er ekkert skrýtið að samfylkingarmenn hlæi að því að vera búnir að koma samherjum sínum í ríkisstjórn í þá aðstöðu. Sá formaður sem verið hefur hvað harðastur gegn Evrópusambandinu talar nú fyrir því máli sem Evrópusambandið er að berjast fyrir, sem Evrópusambandið vill að sé í lagi.

Fyrir nokkrum dögum vann ég verkefni tengt námi mínu um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samskipti okkar við hann. Ég ætlaði fyrst og fremst að einbeita mér að sjóðnum og því sem gengið hefði á frá því í október. Ég var ekki búin að vinna lengi að heimildavinnunni þegar ég rakst á Icesave-málið því að þessi mál hafa meira og minna verið tengd í gegnum tíðina. Mér fannst það mjög gott og hollt fyrir mig að fara í gegnum þá upprifjun. Ég kom inn sem nýr þingmaður í nóvember á síðasta ári. Þá var mikið um að vera í þinginu og það var alveg ótrúlega margt sem ég hafði hreinlega gleymt frá því í nóvember og desember. Það var því mjög mikilvægt fyrir mig að fara í gegnum þetta og ég er nokkuð viss um að ég er ekki sú eina hér á þingi sem er kannski ekki alveg með forsöguna á hreinu. Mig langar því aðeins að rifja þetta upp.

Það kom mjög skýrt fram í skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því fyrir hrun að alveg frá 2006/2007 virðist eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, með alla sína sérfræðinga og allt sitt starfsfólk, hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað var að gerast á Íslandi. Í þeim skýrslum sem ég hef kynnt mér og lesið virtist stundum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði mestar áhyggjur af Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður var stærsta vandamálið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sá í sambandi við peningamálastefnu landsins og margar tillögur voru settar fram um það hvernig taka ætti á vanda íslensks efnahagslífs og þenslunni og þá með því helst að einkavæða Íbúðalánasjóð og draga úr lánveitingum hjá sjóðnum. Hins vegar var ótrúlega lítið fjallað um íslensku bankana, alveg ótrúlega lítið. Það er raunar ekki fyrr en sumarið 2008 þegar Public Notice Information, eða almennt upplýsingablað, kemur frá AGS að þeir virðast vera farnir að gera sér ljóst, eins og við, að íslenska efnahagsundrið var byggt á sandi. Það var byggt á lánsfé og fjármagnað með erlendum lánum eins og við þekkjum. Þessi ótrúlega þensla, þessi ótrúlega útrás íslensku bankanna, var fjármögnuð með erlendu lánsfé. Íslenska fjármálakerfið var því orðið yfir 1.000% af landsframleiðslu og erlendar skuldir voru um 550% af landsframleiðslu, sem fyrst og fremst mátti rekja til bankanna, samkvæmt þessari fyrstu skýrslu sem ég rakst á með því mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Við upplifðum það mörg þannig að efnahagshrunið hefði orðið á einni viku. Margir sátu fyrir framan sjónvarpið og skildu varla hvað var að gerast eftir ræðu þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Geirs H. Haardes. En fyrirvarinn var nokkur. Árið 2008 var erfitt ár. Gengi krónunnar féll um tugi prósentna og íslenska ríkið var á fullu að reyna að styðja við hana. Eftir hrunið segjast ýmsir hafa séð þetta fyrir, segjast hafa varað við þessu. Ýmis ummerki voru um það að menn hefði getað grunað þetta en svo virðist sem menn hafi ekki getað horfst í augu við það sem var að gerast. Það er svo sem ekkert óalgeng hegðun. Ég þekki svolítið til í sambandi við fyrirtækjaráðgjöf og þegar fyrirtæki lenda í erfiðleikum er það mjög algeng hegðun hjá þeim sem reka það að leita allra leiða til að halda áfram, láta eins og ekkert sé að gerast, eyða jafnvel meira. Það er ekkert óalgengt að þeir sem eru í fyrirtækjarekstri og eru nánast orðnir gjaldþrota mæti allt í einu á nýjum jeppa. Þeir hugsa kannski: Ég skulda orðið svo mikið að mig munar ekkert um að bæta einu láninu við mig í viðbót.

Árið 2008 lokuðust erlendir lánamarkaðir fyrir íslensku bankana og bankarnir fóru að leita ýmissa leiða til að fjármagna reksturinn áfram. Landsbankinn greip til þess ráðs, sem við þekkjum allt of vel, að opna reikninga í hinum svokölluðu netbönkum í útibúum á vegum bankans erlendis, fyrst og fremst í Bretlandi og svo í Hollandi, undir vörumerkinu Icesave. Alveg sama hversu mikil heift og reiði getur verið á milli okkar stjórnarliða og stjórnarandstöðu, hvað við getum verið ósátt við vinnubrögðin — og ég skal bara segja það hér að ég er mjög ósátt við það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessu máli. Ég mun ekkert hika við það, þótt hæstv. fjármálaráðherra virðist vera mjög viðkvæmur fyrir því, að gagnrýna það hvernig samninganefndin um Icesave stóð sig og það hvernig ríkisstjórnin hefur staðið sig.

Við megum eftir sem áður ekki gleyma því hverjir bera raunverulega ábyrgðina? Það eru stjórnendur Landsbankans. Þeir tóku ákvörðun um að opna þessi útibú. Þeir tóku ákvörðun um að keyra mjög flottar og árangursríkar markaðsherferðir til þess að ná inn sem mestum peningum sem fljótast. Einn bankastjóri Landsbankans kallaði þetta „tæra snilld“, var það ekki? Ég held að sú orðasamsetning muni seint gleymast, hún mun geymast þjóðarsálinni. Það er alveg á hreinu að þessi orðasamsetning þýðir ekki lengur það sem hún þýddi fyrir efnahagshrunið, „tær snilld“.

Þar sem starfsemi bankans í viðkomandi löndum var rekin í formi útibúa en ekki dótturfélaga giltu lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, um starfsemina. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort nokkur þingmaður, núverandi eða þeir sem þá sátu á þingi, hafi verið búinn að lesa þessi lög fyrir hrunið eða hvort stjórnarmenn viðkomandi innstæðutryggingarsjóðs hafi verið búnir að kynna sér hvað í þeim fælist?

Þessi lög eru byggð á tilskipun frá Evrópuþinginu, þessu margumtalaða Evrópuþingi sem við höfum rætt um hér í dag, nr. 94-19-EB um innlánatryggingakerfi. Þaðan kemur enn á ný að ábyrgð bankamannanna, hversu mikil hún er. Ef Landsbankinn hefði opnað Icesave-reikningana í formi dótturfélags, stofnað banka í viðkomandi löndum eða keypt banka — Landsbankinn átti dótturfélag í Bretlandi — þá stæðum við ekki hér, þá værum við ekki að rökræða þetta því þá væri það algjörlega á hreinu að ekki væri á nokkurn hátt hægt að klína þessu upp á íslenskan almenning og íslenska skattgreiðendur.

Ég hef verið viðskiptavinur í mörg ár hjá Landsbankanum og mér varð að orði, í vikunni sem hrunið varð, að ég hefði nú aldrei trúað því að Landsbankinn yrði gjaldþrota á undan mér, það var það síðasta sem manni datt í hug. Það skrýtnasta líka þegar maður hugsar til baka var að matsfyrirtækin mátu það líka svo að Landsbankinn væri jafnvel sá banki sem stæði best. Þau virtust líta þessa aðferð hjá bankanum, að fjármagna sig með innlánum, mjög jákvæðum augum alveg sama þó að menn viti ósköp vel hversu hvikul innlán eru. Þetta eru skammtímalán. Hvenær sem er er hægt að taka þessa peninga út.

Það má vissulega segja að Landsbankinn hafi gert þetta sérstaklega vel. Hann stóð sig mjög vel í því að markaðssetja Icesave-reikningana, hefði raunar átt að fá verðlaun. Það var „tær snilld“ hjá bankanum hvernig honum tókst að selja þessa reikninga. Á vefsíðu Landsbankans 18. júní 2008 var eftirfarandi fréttatilkynning — maður þurfti reyndar aðeins að grafa:

„Icesave, sparnaðarreikningur Landsbankans í Bretlandi, hefur verið valinn besti netreikningurinn hjá fjármálavefsíðunni Moneyfacts. Moneyfacts er ein öflugasta og vinsælasta fjármálavefsíðan í Bretlandi en þar geta neytendur sótt sér óháða ráðgjöf í fjármálum. Valið náði yfir allan breska fjármálamarkaðinn og felst því í verðlaununum mikil viðurkenning á gæðum Icesave-innlánavörunnar.

Icesave, sem stofnað var í Bretlandi í október 2006, hefur náð framúrskarandi árangri og er fjöldi viðskiptavina nú yfir 250 þúsund. Á komandi ári mun Landsbankinn sækja inn á fleiri evrópska markaði. Opnun Icesave í Hollandi er fyrsta skrefið í þá átt.“ — Að hugsa sér, ekki var eingöngu verið að velta fyrir sér Bretlandi og Hollandi heldur átti að fara inn á allan evrópska markaðinn.

„Viðtökur þar í landi hafa farið fram úr björtustu vonum, en viðskiptavinir eru nú þegar orðnir um 20 þúsund á aðeins rúmum hálfum mánuði.

Það að Icesave skuli vera viðurkennt af óháðum og virtum aðila eins og Moneyfacts sýnir svo ekki verður um villst hversu góð innlánavara Icesave-netreikningurinn er. Icesave hefur fljótt skipað sér sess meðal vinsælustu netreikninga á breska sparifjármarkaðnum með því að bjóða upp á einfalda vöru, samkeppnishæf kjör og notendavænt viðmót á netinu. Við stefnum að sjálfsögðu að því að halda áfram þessum frábæra árangri og þessi viðurkenning er okkur mikill styrkur í frekari uppbyggingu innlánastarfsemi á meginlandi Evrópu.“ Þetta segja Sigurjón Þór Árnason og Halldór J. Kristjánsson, bankastjórar Landsbankans.

Maður ætti kannski bara að þakka fyrir að efnahagshrunið skyldi hafa orðið í október því að vissulega vaknar spurning eins og sú sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hafði eftir hv. þm. Ögmundi Jónassyni: Hvar hefði Evrópusambandið sett mörkin? Hvar hefðu Bretar og Hollendingar sagt: Við getum ekki gert kröfu á þessa litlu þjóð? Var það þegar við vorum komin upp í 400 þúsund innlánseigendur, eins og þarna var, eða milljón? Hvað ef það hefðu verið 5 milljónir? Miðað við þá hörku sem maður sér hjá Bretum og Hollendingum í þessu máli þá grunar mann, þó að maður fái nánast í magann við þá tilhugsun, því að nógu slæmt er þetta, að við stæðum líka hér og værum að ræða þetta. Við værum enn á ný að tala um þessa vexti og þá hefði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hugsanlega sagt að þeir teldu að þessar skuldir væru ekki sjálfbærar en sjóðurinn virðist hafa ýmsar reikningskúnstir til að reikna sig fram til þess að það sé alveg ótrúlegt hvað Íslendingar geta borgað.

Í heildina lögðu breskir innstæðueigendur um 4 milljarða, 526 milljónir 988 þúsund og 847 pund inn á Icesave og hollenskir innstæðueigendur um 1 milljarð, 674 milljónir 285 þúsund og 671 evru eða um 1.300 milljarða íslenskra króna. Alveg ótrúlegar upphæðir. Þær upphæðir sem við höfum verið að fjalla um, og það var ein af setningunum sem er mér kannski hugleiknust eða minnisstæðust frá því í umræðu í sumar, var þegar hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir steig í pontu og talaði um að hún hefði engan áhuga á að ræða um krónur. En hvað, milljónir? Hvað um milljarð? Það er náttúrlega það sem við erum að tala um. Það eru svo ótrúlega margir punktar sem hafa komið fram sem hafa sýnt að hvert einasta prósentustig, meira að segja brot af prósentum skipta miklu máli vegna þess að við erum að tala um svo gífurlega háar upphæðir.

Ekki var nóg með að verið væri að fagna því að netreikningurinn skyldi hafa verið valinn bestur hjá Moneyfacts heldur sáu bankastjórar Landsbankans mikla ástæðu til að fagna við sex mánaða uppgjör bankans. Þá sagði áðurnefndur tær snillingur, Sigurjón Árnason, með leyfi forseta:

„Afkoma Landsbankans á fyrstu sex mánuðum ársins er mjög góð. Þetta er mikilvægt, ekki síst í ljósi erfiðra aðstæðna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Grunntekjur samstæðunnar hafa aukist um 32% miðað við fyrstu sex mánuði ársins 2007. Þá var arðsemi eigin fjár 35% á tímabilinu. Á öðrum ársfjórðungi steig bankinn stórt skref er hann hóf innlánastarfsemi á meginlandi Evrópu með því að bjóða Icesave-netreikninginn í Hollandi. Fjöldi Icesave-reikninga í Bretlandi og Hollandi er nú yfir 350.000 talsins og yfir 50% af heildarfjárhæð Icesave-innlánanna í Bretlandi er nú bundin. Bankinn mun halda áfram að styrkja hlutfall innlána í fjármögnun sinni en starfsemi Icesave í Hollandi er bæði sveigjanleg og öflug sem auðveldar Landsbankanum að sækja inn á fleiri markaði Evrópu á næstu mánuðum.“

Mér skilst að þá þegar hafi seðlabankinn í Hollandi verið farinn að gera athugasemdir við starfsemi bankans í landinu þannig að viðvörunarmerki voru til staðar. Stefnan var hins vegar sett á að opna enn fleiri útibú auk þess sem Kaupþing opnaði Edge-reikningana m.a. í Þýskalandi.

Um miðjan september óskaði bandaríski bankinn Lehman Brothers eftir að vera tekinn til gjaldþrotaskipta og íslenska spilaborgin hrundi hratt í framhaldinu. Þann 9. september var tekin ákvörðun af þáverandi ríkisstjórn og bankastjórn Seðlabankans um að ríkisvæða Glitni með kaupum á 75% hlut. Það litla traust sem var til staðar á íslenskum bönkum hvarf og ríkisstjórnin sá fram á að ekki mundi takast að bjarga Glitni og Landsbankanum. Því var allt lagt undir til að bjarga Kaupþingi og lánaði Seðlabankinn Kaupþingi 500 milljónir evra gegn veði í danska FIH-bankanum. Ég verð að segja að ég fagna því sérstaklega að hæstv. forsætisráðherra skuli vera hérna og hlusta á þetta og óskandi væri að fleiri ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni sætu hérna og jafnvel fyrrverandi ráðherrar líka, því það virðist vera gegnumgangandi að ákveðið minnisleysi hrjái þá einstaklinga varðandi þessa sögu og aðkomu þeirra að bankahruninu.

Um kvöldið voru hin svokölluðu neyðarlög eða heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði afgreidd frá Alþingi kl. 18 mínútur yfir 11. Fjármálaeftirlitið tók yfir Landsbankann daginn eftir og Glitni þann 8. október. Bresk stjórnvöld brugðust ókvæða við og frystu eignir Landsbankans með hryðjuverkalögum og breska fjármálaeftirlitið tekur yfir Kaupþing, Singer og Friedlander og selur Kaupþing Edge til ING Direct. Daginn eftir var svo ljóst að ekki var hægt að bjarga Kaupþingi og bankinn var tekinn yfir af FME.

Í allri þessari ringulreið, í allri þessari kaos, í allri þessari skelfingu bönkuðu stjórnvöld Bretlands og Hollands upp á og spurðu hvernig íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn ætlaði að greiða þær innstæður sem væru á Icesave-reikningum Landsbankans. Ef ekki væru innstæður hjá Tryggingarsjóðnum yrði íslenska ríkið að ábyrgjast greiðslurnar. Þrýstingur var gífurlega mikill strax þarna. Á þessu tímabili held ég að íslensk fyrirtæki sem áttu eignir í Bretlandi hafi ekki vitað hvort þau hefðu ráðstöfunarrétt yfir þeim. Íslenski seðlabankinn vissi ekki hvort hann hefði ráðstöfunarrétt yfir þessu og Bretar flýttu sér að koma kæru til ESA vegna þess að þeir töldu að verið væri að mismuna breskum ríkisborgurum gagnvart íslenskum ríkisborgurum. Það má segja að næstum megi tala um nauðung strax frá upphafi þar sem var verið að berja á íslenskum stjórnvöldum, bæði heima og að heiman.

Ég hef stundum velt fyrir mér tengslum viðbragða stjórnvalda þá, hversu lítil viðbrögðin hjá þeim voru eins og hér hefur verið rætt. Af hverju var íslenski sendiherrann ekki kallaður heim þegar við vorum beitt hryðjuverkalögunum? Af hverju þurfti stjórnarandstöðuþingmann, sem er núverandi hæstv. fjármálaráðherra, til að koma með mótmæli á vettvangi NATO, þegar ein NATO-þjóð ræðst svona með fjármálaárás á aðra þjóð? Af hverju var ekki farið strax að tala við ríkisstjórnir Norðurlandanna, innan Evrópusambandsins, Bandaríkin, og þessum aðgerðum mótmælt. Og þegar maður síðan skoðar t.d. mál sem var töluvert stórt á sínum tíma en var þannig séð ekki jafnafdrifaríkt og þetta mál er fyrir Ísland en það var þegar varnarliðið fór héðan þá var það þannig að fyrrverandi bankastjóri Seðlabankans — alveg sama hvaða skoðanir við höfum á honum persónulega — sýndi mikla hörku í samskiptum sínum við Bandaríkjamenn þegar þeir vildu fara með varnarliðið í burtu, vildu fara með flugvélarnar í burtu og hann hótaði að mótmæla því bæði á vettvangi NATO og að rifta varnarsamningnum. En viðbrögðin hins vegar þegar viðkomandi einstaklingur var farinn úr ríkisstjórn og annar ráðherra tekinn við forsæti, þá má segja að það hafi verið kannski svipuð viðbrögðin en þeim hótunum sem höfðu komið fram var ekki fylgt eftir. Það var það sem maður kannski upplifði í þessu að það var eins og menn væru í það miklu sjokki að þeir gátu ekki brugðist við. Af þeim gögnum sem maður hefur lesið varðandi Icesave-málið verð ég að viðurkenna að það er a.m.k. ein samfylkingarmanneskja, fyrrverandi þingmaður og fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem kannski var hörðust í viðbrögðum sínum, og var sú sem virkilega mótmælti og þorði að rífa kjaft við systurflokk sinn, Verkamannaflokkinn í Bretlandi, þorði að rífa kjaft við systurflokka sína á Norðurlöndunum líka. Enn á ný er hún einn örfárra samfylkingarmanna sem maður hefur heyrt í sem hefur einmitt verið að mótmæla því hvernig hefur verið gengið frá þessu máli, hvernig hefur verið samið um þetta mál, hvernig íslensk stjórnvöld hafa lyppast niður gagnvart Bretum og Hollendingum.

Þessi þrýstingur var strax frá Bretum, Hollendingum og ESB. ESB bakkar þessar þjóðir upp og misnotkunin á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hófst þá strax. Meðan þessi ágreiningur var óleystur tóku bresk og hollensk stjórnvöld sig til og greiddu almennum innstæðueigendum út innstæður sínar umfram það sem er lágmarkstrygging á EES-svæðinu, þ.e. 20.887 evrur, Bretar greiddu slíkar innstæður að fullu en hollensk stjórnvöld greiddu að hámarki 100 þúsund evrur. Þetta var ákvörðun sem þessir sjóðir, bresku og hollensku innstæðutryggingarsjóðirnir tóku einhliða, tilkynntu íslenska innstæðutryggingarsjóðnum að þetta væri það sem þeir ætluðu að gera.

Um þetta leyti var síðan Evrópusambandinu falið af hálfu Breta og Hollendinga að gerast milligönguaðili í málinu og íslensk stjórnvöld vildu fá niðurstöðu fyrir dómstólum um hvort innstæðutryggingakerfið næði yfir nánast kerfishrun í heilu landi og hvort það væri ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Ástæða viðsemjenda var að það væri varhugavert að gefa á nokkurn máta til kynna að vafi kynni að leika á um innlánstryggingakerfi sem væri undirstaða innlánsstarfsemi í Evrópu. Gildi tilskipunarinnar var að fá innstæðueigendur til að treysta bönkum fyrir sparifé sínu því ef í ljós kæmi að réttaróvissa ríkti gæti það haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir evrópskt bankakerfi. Því var ekki hægt að samþykkja afgreiðslu á láni til Íslendinga, hvorki frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né öðrum löndum vegna þrýstings þessara landa og ESB, fyrr en íslenska ríkið væri búið að semja um og samþykkja Brussel-viðmiðin. Þessi merkilegu Brussel-viðmið náðust fram og ýmsir í þeirri ríkisstjórn töldu þau vera mjög mikilsverð en því miður, eins og hefur komið margoft fram, týndust þau nánast í meðhöndlun samninganefndarinnar.

Ég ætla aðeins að renna í gegnum þegar talað er um rökin sem eru með og á móti, og eru raunar það sem við höfum verið að takast á um í þinginu í þessa sex mánuði, þ.e. hvort íslenska ríkinu væri skylt að bæta tjón innstæðueigenda í erlendum útibúum íslensku bankanna. Það eru til rök sem eru með því, það eru að sjálfsögðu ekki bara rök á móti þó að maður vilji gjarnan trúa því að það séu bara rök á móti.

En í fyrsta lagi að tilgangurinn með tilskipuninni væri skýr, það er að tryggja að innstæðueigendur töpuðu ekki innstæðum undir 20.000 evrum og að innstæðutryggingar í útibúum erlendis væru sérstaklega tilgreindar í markmiðum tilskipunarinnar.

Í öðru lagi bæri íslenska ríkinu að tryggja með innleiðingu að staðið væri við ofangreinda skuldbindingu, þ.e. að markmiði væri náð, í rauninni væri verið að innleiða þessa tilskipun.

Í þriðja lagi að ef íslenska tryggingakerfið tryggði ekki innstæðueigendur upp að 20.000 evrum hefði tilskipunin ekki verið réttilega innleidd.

Hins vegar eru rökin gegn því að við þurfum að borga þetta líka mjög sterk. Það eru þau rök sem ég tek undir.

Í inngangsorðum tilskipunar er talað um ótiltæk innlán í lánastofnunum í eintölu og að ekki væri gert ráð fyrir hruni bankakerfis í heild sinni. Sérstaklega var vikið að stöðugleika bankakerfisins í inngangsorðunum og að fjármögnun trygginganna mætti ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkis í hættu. Fjármögnunin mætti þannig ekki stefna stöðugleikanum sjálfum í hættu. Það mætti ráða af inngangsorðunum að skylda íslenska ríkisins fælist í því að koma kerfinu upp en ekki styðja það fram í rauðan dauðann. Það er líka tekið fram í þessum inngangsorðum að tilskipunin gæti ekki gert aðildarríki eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum, viðurkenndum af stjórnvöldum, þá væri ljóst að engar athugasemdir hefðu komið fram við íslenska tryggingakerfið enda væri það sambærilegt við önnur kerfi og að stjórnvöld hér á landi hefðu verið í góðri trú.

Síðan liggja fyrir skýrslur frá framkvæmdastjórn ESB sem styðja þessa niðurstöður, þ.e. að kerfin réðu ekki við nema eitt áfall, single crisis, hjá meðalstórri lánastofnun, en ekki algjört bankahrun.

Hins vegar var þó samt tekin þessi afstaða, pólitísk afstaða, ekki lagaleg afstaða heldur pólitísk afstaða. Það var pólitísk lausn að samþykkja Brussel-viðmiðin eftir mikla nauðung. Með leyfi forseta, þá stóð í þingsályktunartillögu um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu:

„Með allt framangreint í huga er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni. Gert er ráð fyrir því að þau ríki sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga viðkomandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins. Þær viðræður sem fram undan eru munu skera úr um nánari útfærslu þessara lánveitinga, auk þess sem hin endanlega niðurstaða mun ráðast af því að hve miklu leyti andvirði eigna viðkomandi banka mun renna til sjóðsins við uppgjör á búum þeirra.

Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.“

Í fylgiskjali koma svo hin svokölluðu Brussel-viðmið fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt að renna aðeins í gegnum þau vegna þess að það hefur verið eitt af stóru umkvörtunarefnunum varðandi þessa samninga að það er ekki minnst einu orði á Brussel-viðmiðin. Sú undirstaða sem þáverandi utanríkisráðherra lagði á sig geysilega mikla vinnu við að fá fram og það var mikið tekist á um hérna í þinginu fyrir áramót. Þau eru svohljóðandi:

„1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

2. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.

3. Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.“

Í þessari umræðu tók hæstv. fjármálaráðherra, þáverandi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, virkan þátt í og skrifaði í nefndaráliti sínu um málið, með leyfi forseta:

„Að sjálfsögðu er ljóst að málið er í hinu mesta óefni og að baki liggja jafnvel lítt dulbúnar hótanir Evrópusambandsins eða þeirrar blokkar sem myndaðist innan Evrópusambandsins í þessu máli um að beita okkur þvingunaraðgerðum. Látið hefur verið í það skína að einhver hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið verði settur í uppnám ef við föllumst ekki á að hverfa frá öllum hugmyndum um lögformlegan eða lagalegan úrskurðarfarveg í málinu og ganga til þessa pólitíska þvingunarsamkomulags sem Evrópusambandið er að knýja fram, samkomulag sem hlýtur að mega flokka sem ógildanlegan nauðasamning að lögum og þjóðarétti. Þetta eru að mati undirritaðs óásættanlegir afarkostir og ekki boðlegt að ætla að taka á íslenska ríkið, og þar með íslenska skattgreiðendur, á komandi árum skuldbindingar sem geta hlaupið á fleiri hundruðum milljarða króna, jafnvel numið heilum til einum og hálfum fjárlögum íslenska ríkisins eins og þau eru um þessar mundir, á jafnveikum forsendum og hér er lagt til.“

Í nefndarálitinu segir enn fremur:

„Mikil óvissa er því um alla stöðu málsins, bæði stærðargráðu ábyrgðanna sem í húfi geta verið, ekki síst í ljósi óvissu um raunverulegt verðmæti eigna Landsbankans, svo og vegna þess að enn hafa engar eiginlegar samningaviðræður farið fram milli deiluaðila eftir að samkomulagið var gert 16. nóvember sl.

Það er því til mikils mælst, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ríkisstjórnin skuli ætlast til þess að Alþingi veiti henni galopið samningsumboð til að leiða til lykta þetta mál sem getur falið í sér skuldbindingar til frambúðar fyrir íslenska ríkið svo nemi fleiri hundruðum milljarða króna á grundvelli ekki traustari gagna en enn er við að styðjast og í ljósi þess hversu málsatvik og málsaðstæður allar eru ótraustar.“

Þann 5. desember voru þessar tvær þingsályktunartillögur síðan afgreiddar á Alþingi Íslendinga, annars vegar lán sótt til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og svo hin svokölluðu Brussel-viðmið. Margt af því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði þarna stendur enn. Við vitum enn þá ekkert um raunverulegt verðmæti Landsbankans, eigna Landsbankans. Þótt hins vegar hafi farið fram samningaviðræður milli deiluaðila getum við enn þá talað um óútfylltan tékka.

Ef það er einhver þingmaður fyrir utan hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem hefur barist gegn þessu máli frá upphafi er það hv. þm. Pétur Blöndal. Hann hefur verið vakandi og sofandi yfir Icesave-málinu. Strax í desember fyrir ári sagði hv. þm. Pétur Blöndal að vandinn sem íslensk stjórnvöld stæðu frammi fyrir væri þríþættur. Í fyrsta lagi jöklabréfin. Í öðru lagi Icesave-reikningarnir og í þriðja lagi aðkoma og samningar við kröfuhafa bankanna. Þingmaðurinn hafði einnig miklar efasemdir um að Íslendingar gætu ráðið við þetta allt saman í heild og nauðsynlegt væri að fara í heildstæða samninga við alla þessa aðila.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði síðan þegar var verið að klára þingsályktunina, með leyfi forseta:

„„Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.“ Þetta er svona svipað og að senda mann út í bæ að kaupa hús. Við felum honum að kaupa hús alveg sama hvað það kostar og alveg sama hvað það er stórt eða lítið eða hvar það er staðsett og svo framvegis. Svo ætlum við að ræða það þegar kemur að því að borga einstakar greiðslur af húsinu. Þá náttúrlega þýðir ekkert að tala um það meir. Ef hann er búinn að semja fyrir okkar hönd um að kaupa hús þá borgum við náttúrlega af því einstakar greiðslur og getum ekki hvikað frá því. Ég sé því ekki hvernig í ósköpunum Alþingi ætlar að meta þessa samninga. Samningarnir sjálfir verða ekkert til umræðu. Við erum að fela sjálfdæmi þeim aðilum sem eru að semja fyrir okkur og það er eins gott að það séu klárustu menn í heimi. Ég bara segi ekkert annað. Það er eins gott að það séu mjög klárir menn og vinni mjög náið með skilanefndum bankanna sem eru líka að vinna að heill þjóðarinnar. Mér finnst þetta mjög mikið framsal á valdi og ætla að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki verið rætt í nefndinni.“

Þetta kom fram í andsvari við framsögumann málsins, hv. þm. Bjarna Benediktsson.

Ég á töluvert eftir af ræðu minni og næst ætlaði ég að fara í gegnum það að þó að þeir menn sem tóku sæti í þessari samninganefnd hafi verið ágætlega vel gefnir verð ég hins vegar að fullyrða það að þetta voru svo sannarlega ekki klárustu menn í heimi og mun ræða það þegar ég kem hér aftur upp.