138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það þurfi svo sem ekki að koma á óvart að Evrópuþingið telji sig hafa rétt til þess að hafa skoðun á þessu. Evrópuþingið hefur náttúrlega í gegnum EES-samninginn meira og minna dælt á okkur þeirri löggjöf sem við byggjum fjármálamarkað okkar á þannig að það er á hreinu að þeir telja sig — og hafa náttúrlega gert í gegnum allt þetta mál — hafa heilmikið um það að segja og hafa beitt miklum þrýstingi til stuðnings Bretum og Hollendingum. Eins og ég rakti í ræðu minni sér maður það eins og rauðan þráð hvernig Evrópusambandið er alltaf þarna einhvers staðar á bak við.

Það er náttúrlega mjög einkennilegt að vera í þeirri aðstöðu að eiga í deilum við tvö aðildarríki Evrópusambandsins og sækja samtímis um inngöngu í klúbbinn. Það er náttúrlega alveg ótrúlegt að þessi ríkisstjórn skuli hafa sett okkur í þá aðstöðu, því að sjálfsögðu hefði þurft að klára þetta deilumál fyrst (Forseti hringir.) og síðan íhuga hvort við hefðum eitthvað þangað að sækja.