138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði einmitt talið að það hefði kannski verið ástæða til að halda þessum Brussel-viðmiðum mun sterkar fram í viðræðunum við Breta og Hollendinga. Ég tel að mörgu leyti að það hafi verið ákveðin mistök að halda þeim ekki harðar fram í þessum viðræðum.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson fór aðeins í gegnum þetta í ræðu sinni og ef þetta er eins og fyrrverandi formaður samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, sagði að við værum að taka byrðarnar fyrir innstæðutryggingakerfið í Evrópu, að við værum svona nánast eins og Kristur á krossinum að fórna okkur fyrir bankakerfið í Evrópu, þá skilur maður ekki af hverju við héldum þeim sjónarmiðum ekki fram innan samninganefndarinnar, af hverju við reyndum ekki að fá Evrópusambandið til að hjálpa okkur að þrýsta á það að alla vega vextirnir yrðu lægri, (Forseti hringir.) því það er það sem við erum að tala um. Stóra málið núna er náttúrlega vaxtabyrðin og sú mikla gengisáhætta sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið mjög duglegur að benda á.