138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög athyglisvert og ég er sammála hv. þingmanni um að það er einmitt akkúrat þannig að þegar einn telur sig eiga kröfu á annan þá gengur hann eftir efndum eins lengi og skuldarinn er líklegur til að greiða eitthvað upp í kröfuna, þannig að ég held að það sé akkúrat málið. Allar þær heimsendaspár sem dundu á okkur hér í þinginu í sumar um það að ef þetta mál kláraðist ekki fyrir hina eða þessa dagsetninguna — sem reyndar var alltaf að breytast — hafa einfaldlega verið blekking. Ég rek það að talsverðu leyti til þess að þetta mál tengist Evrópusambandsaðildarumsókn okkar töluvert og ég tel að sú ályktun sem Evrópuþingið sendi okkur hér í dag, akkúrat beint inn í þessa umræðu, sé hluti af þeirri áróðursmaskínu sem farin er af stað þar. Mjög athyglisvert væri að heyra hug stjórnarþingmanna eða hvaða skoðun þeir sem studdu að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) og studdu jafnframt Icesave-málið hér í sumar hafa á þessari ályktun.